Á aðalfundi Arion banka, sem fram fer 16. mars næstkomandi, mun verða lögð fram tillaga stjórnar um að bankinn fái heimild til að kaupa allt að tíu prósent hlut í sjálfum sér, eða alls um 150 milljón hluti. Markaðsvirði þess hlutar í dag eru um 28,3 milljarðar króna.
Heimildina á að nýta til að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum. Framkvæmd endurkaupa á grundvelli heimildar þessarar er háð því skilyrði að fyrir fram samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Þetta kemur fram í tillögum sem lagðar verða fyrir aðalfund Arion banka og hafa verið birtar í Kauphöll Íslands.
Til viðbótar við möguleg endurkaup stendur til að greiða 79 prósent af hagnaði síðasta árs út sem arð, alls 22,5 milljarða króna. Gangi öll þessi áform eftir mun Arion banki vera búinn að greiða hluthöfum sínum 86,6 milljörðum króna út úr rekstrinum með arðgreiðslum og endurkaupum frá byrjun árs 2021.
Laða að og halda í „hæfa leiðtoga“
Í tillögunum eru einnig lagðar til ýmsar breytingar á starfskjörum stjórnenda í Arion banka. Í uppfærðri starfskjarastefnu, sem verður lögð fyrir aðalfund til samþykktar, segir meðal annars að almennt skuli „starfskjör bankastjóra, aðstoðarbankastjóra, framkvæmdastjóra og regluvarðar vera til þess fallin að laða að og halda í hæfa leiðtoga. Starfskjaranefnd stjórnar skal, að fengnum tillögum bankastjóra, samþykkja viðeigandi launaramma, þar sem tekið er tillit til starfskjarastefnu þessarar, samanburðar við fyrirtæki sem eru sambærileg Arion banka að því er varðar starfsemi, stærð, eða orðspor, og sem samræmast fyrirtækjamenningu bankans, stefnu, gildum, áherslu á sjálfbærni og langtímahagsmunum hluthafa bankans og annarra hagsmunaaðila.“
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, var með 69,8 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð á síðasta ári. Hann fékk auk þess kaupauka upp á 17,5 milljónir króna, sem greiddur var út í formi hlutabréfa, og kauprétti á bréfum í samræmi við kaupréttakerfi bankans ofan á það.
Mistök eða vanræksla ekki verðlaunuð
Sá hluti sem snýr að starfslokasamningum helstu stjórnenda er einnig uppfærður í tillögunum.
Þar segir að í undantekningartilvikum sé hægt að gera „starfslokasamning við bankastjóra, aðstoðarbankastjóra og framkvæmdastjóra. Skilmálar slíkra samninga skulu vera í formi beinna launagreiðslna og ekki vara lengur en í 12 mánuði eftir starfslok. Starfslokagreiðslur skulu að endurspegla árangur í starfi og mega ekki verðlauna mistök eða vanrækslu.“
Þá er sá hluti starfskjarastefnu bankans sem fjallar um kaupaukakerfi einnig uppfærður og nú gert ráð fyrir að hann hafi heimild til að hætta við kaupaukagreiðslur, sem ekki hafa verið inntar af hendi, eða endurheimta þegar greiddar kaupaukagreiðslur, að hluta til eða að öllu leyti, „til dæmis vegna tilvika þar sem viðkomandi starfsmaður hefur tekið þátt í eða borið ábyrgð á athöfnum sem hafa valdið verulegu tapi fyrir bankann eða falið í sér meiri háttar brotum á reglum.“