Stjórnmálaforysta Þýskalands mun fá nýja ásýnd í haust, er Angela Merkel lætur af embætti eftir 16 ára setu sem kanslari. Í vikunni hafa flokkarnir tveir sem taldir eru eiga raunhæfa möguleika á því að vera leiðandi afl í þýskum stjórnmálum eftir kosningar komist að niðurstöðu um það hver verði kanslaraefni þeirra.
Hjá Kristilegum demókrötum (CDU) og systurflokknum CSU í Bæjaralandi höfðu tveir menn sóst eftir því að leiða hreyfinguna til kosninga og verða arftakar Merkel á kanslarastóli. Annars vegar er það Armin Laschet, sem kjörinn var leiðtogi CDU í janúarmánuði og hins vegar leiðtogi systurflokksins í suðri, Markus Söder.
Á löngum fjarfundi á mánudagskvöld komst flokkstjórnin að þeirri niðurstöðu að Laschet, sem er dyggur stuðningsmaður Merkel og af mörgum talinn boða áframhald á hennar stefnu, væri rétti maðurinn til að leiða flokkinn til kosninga. Atkvæði féllu 31-9, hinum sextuga Laschet í vil.
„Teningunum hefur verið kastað. Armin Laschet verður kanslaraefni CDU/CSU,“ sagði Söder á blaðamannafundi í München í dag og lýsti því yfir að hann sjálfur og CSU myndu róa öllum árum að því að systurflokkarnir, með Leschet sem kanslaraefni, myndu vinna kosningasigur.
Gjörbreytt staða frá því febrúar
Þegar Laschet var kjörinn nýr leiðtogi CDU í janúarmánuði leit allt út fyrir að eina mögulega baráttan um kanslaraembættið myndi fara fram innan hreyfingarinnar, einmitt á milli hans og Söder. Ekki var talið raunhæft að aðrir flokkar ættu möguleika á því að leiða stjórn, en þá var CDU/CSU að mælast með á bilinu 35-37 prósent fylgi í skoðanakönnunum.
Sú staða hefur snarbreyst síðan þá, ekki síst vegna óánægju með sóttvarnaraðgerðir. Þær hafa verið afar stífar í Þýskalandi, sem hefur átt í mestu vandræðum með að vinna sig út úr þriðju bylgju faraldursins. Fylgi CDU/CSU hefur mælst á bilinu 26-31 prósent undanfarinn mánuð og er komið á svipaðar slóðir og það var áður en faraldurinn skall á og byrjaði að setja allt úr skorðum snemma árs 2020. Þá fylkti fólk sér á bak við ríkisstjórnarflokkana, en nú er komin þreyta.
Könnun um stöðu mála eftir að ljóst var hver kanslaraefnin tvö yrðu birtist í dag, en hún sýnir Kristilega demókrata með einungis 21 prósent fylgi – og Græningja með 28 prósent fylgi. Sem eru miklar sviptingar, frá síðustu könnunum. Raunar er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2019 sem Græningjar mælast stærri en CDU/CSU blokkin.
Annalena kanslaraefni Græningja
Fylgistap Kristilegra demókrata opnar á möguleika sem þóttu afar fjarlægir fyrir örfáum mánuðum. Græningjar, sem hafa verið í stjórnarandstöðu allt frá árinu 2005, hafa verið með 20-23 prósenta fylgi og gera sér greinilega vonir um að vera eftir kosningar í þeirri stöðu að geta orðið leiðandi afl í ríkisstjórn landsins og myndað samsteypustjórn án aðkomu CDU/CSU.
Flokkurinn, sem hefur einungis einu sinni fengið yfir 10 prósent atkvæða í þingkosningum (árið 2009) og fékk 8,9 prósent árið 2017, hefur í fyrsta sinn tilnefnt kanslaraefni.
Það gerði flokkurinn í gær, en allnokkrar vangaveltur höfðu verið um það hvert kanslaraefnið yrði. Leiðtogar flokksins eru nefnilega tveir, Annalena Baerbock og Robert Habeck. Niðurstaðan varð að Baerbock, sem er fertug að aldri og lögfræðingur að mennt, myndi verða kanslaraefni flokksins.
Þessi niðurstaða var kynnt á blaðamannafundi í gær og þar sagði Baerbock, samkvæmt frétt DW, að leiðtogum flokksins hefði ekki órað fyrir því að verða að velja kanslaraefni árið 2021, er þau tóku ákvörðun um stefnubreytingu í þá átt að flokkurinn höfðaði til fleiri kjósenda fyrir þremur árum síðan.
„Róttæk og stjórnspekingsleg“
Baerbock og Habeck hafa fært Græningja inn á miðjuna frá jaðrinum. Eða miðjuna í þýskum stjórnmálum ögn lengra til vinstri. Reynt er að höfða til fjöldans í auknum mæli. Sjálf hefur hún margoft notað orðin „róttæk og stjórnspekingsleg“ til þess að lýsa þeirri ímynd sem flokkurinn hefur reynt að skapa sér.
Baerbock hefur haslað sér völl í stjórnmálum hratt. Hún var fyrst kjörin á þing árið 2013 og var síðan kjörin annar tveggja leiðtoga flokksins árið 2018. Síðan þá hefur flokkurinn notið góðs gengis í skoðanakönnunum, en áherslur flokksins á umhverfismál og róttækari aðgerðir í loftslagsmálum en boðaðar hafa verið af hálfu þýsku stjórnarinnar hafa hlotið mikinn hljómgrunn.
Mikið hefur verið spáð og spekúlerað í mögulegt stjórnarmynstur í Þýskalandi eftir komandi kosningar. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum hefðu Kristilegir demókrata og Græningjar kost á því að mynda tveggja flokka stjórn, á meðan að afar hæpið er að núverandi stjórn Kristilegra demókrata og Sósíaldemókrata haldi velli í ljósi fylgistaps beggja flokka.
Græningjar gætu hins vegar þurft að gefa töluverðan afslátt af stefnumálum sínum í slíkri stjórn og sú mynd er að teiknast upp að mögulega, kannski, geti flokkurinn leitt þriggja flokka stjórn, án aðkomu CDU/CSU. Með Baerbock sem kanslara. Það er þó enn langt til kosninga.