Árni Páll Árnason var endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í kvöld. Þar með sigraði hann slaginn um formannsstólinn við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmann Samfylkingarinnar og formann velferðarnefndar Alþingis. Töluverður dráttur varð á tilkynningu úrslitanna vegna tæknilegra vandamála, en kosningin var rafræn.
Sigurinn stóð tæpt því Árni Páll hlaut 241 atkvæði í formannskjörinu og Sigríður Ingibjörg 240. Alls voru 503 landsfundarfulltrúar á kjörskrá, 487 þeirra greiddu atkvæði, eða 97 prósent. Anna Pála Sverrisdóttir hlaut eitt atkvæði og fimm voru auð. Drátturinn á tilkynningu úrslitanna má rekja til þess hversu mjótt var á mununum. „Þetta er sérkennileg niðurstaða,“ sagði Árni Páll þegar hann ávarpaði landsfundinn eftir að tilkynnt hafði verið um úrslitin.
Sigríður Ingibjörg tilkynnti, flestum að óvörum, um framboð sitt síðdegis í gær, tæpum sólarhringi fyrir formannskjörið. Framboð hennar kom fram eftir að frestur rann út svo hægt væri að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu, þannig að kjör á nýjum formanni Samfylkingarinnar var einungis í höndum landsfundarfulltrúa.
Árni Páll tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur sem formaður Samfylkingarinnar árið 2013. Árni Páll var kjörinn í allsherjarkosningu og hlaut afgerandi kosningu í baráttunni um formannsstólinn við Guðbjart Hannesson. Samfylkingin beið afhroð í síðustu Alþingiskosningum, undir stjórn Árna Páls, þegar flokkurinn hlaut 12,9 prósent atkvæða og tapaði ellefu þingmönnum.
Samfylkingunni hefur gengið illa að undanförnu að ná vopnum sínum að nýju undir forystu Árna Páls. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist flokkurinn með 17,1 prósents fylgi, og tapaði 1,4 prósentum á milli kannanna. Í nýjustu könnun MMR mældist flokkurinn með 15,5 prósenta fylgi og bætti við sig prósentustigi á milli kannanna.
Árni Páll Árnason er fjórði þingmaður Suðvesturkjördæmis, og hefur átt sæti á Alþingi frá árinu 2007 fyrir hönd Samfylkingarinnar. Hann var félags- og tryggingamálaráðherra 2009 til 2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010 til 2011.