Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, flutti setningaræðu sína á landsfundi flokksins á fimmta tímanum í dag. Þar lagði hann áherslu á húsnæðismál, kjaramál og þau mannréttindi fólks að geta lifað lífinu með fullri reisn.
Árni Páll boðaði róttækar breytingar á húsnæðiskerfinu. „Við leggjum fyrir þennan fund heildstæðar úrbótatillögur. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í þessum málum. Dagur er byrjaður að auka framboð af leiguíbúðum í Reykjavík. En sú uppbygging mun taka mikinn tíma. Við getum ekki bara beðið. Ríkið verður að spila með. Við þurfum hækkun húsaleigubóta.Við verðum að fjölga íbúðum til leigu og draga úr svimandi háu leiguverði. Þess vegna þurfa leigutekjur af einni íbúð að vera skattfrjálsar fyrir einstaklinga, en því aðeins að leiga sé ekki yfir meðalverði.Við þurfum að þróa kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sína fyrstu íbúð. Samfylkingin ætlar að tryggja öllum húsnæði á sanngjörnum kjörum.“
Þær deilur sem framundan eru á vinnumarkaði voru Árna Páli einnig ofarlega í huga. „Ríkisstjórnin hefur komið samskiptum við aðila vinnumarkaðarins í uppnám. Svar okkar verður að vera að leiða nýtt samtal við aðila vinnumarkaðarins. Norræna samfélagsmódelið hefur aftur og aftur sýnt að það getur betur glímt við bæði uppsveiflu og samdrátt en önnur kerfi. Til þessa að það virki þarf ábyrga hagstjórn, sem byggir á stöðugleika, góðum aðgangi að erlendum mörkuðum og samræmda launastefnu sem ýtir undir hagvöxt og fulla atvinnu og dregur úr launamun og tryggir að enginn verði skilinn eftir. Það þarf umfangsmikil velferðarkerfi, sem byggja á afkomutryggingu og aðgengi að þjónustu sem tryggir mikla atvinnuþátttöku og hreyfanleika launafólks, ódýra menntun og heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem fjármögnuð er með sköttum og tryggir jafnrétti í reynd. Og það þarf vel skipulagðan vinnumarkað, sem byggir á samspili milli lagasetningar og kjarasamninga.
Ekkert í þessu er sjálfgefið. Allt byggir þetta á samspili á milli stjórnmálaflokkanna og samtaka á vinnumarkaði. Allir þurfa að hafa næg áhrif, breidd og umboð til að leita eftir heildarlausnum og fylgja eftir þeim aðgerðum sem þörf er á. Þess vegna eigum við að skuldbinda okkur til að stjórna á þennan veg: Við munum setja okkur almenna efnahagsstefnu með þessi markmið að leiðarljósi og leggja hana fyrir samráðsvettvang með aðilum vinnumarkaðarins. Að því loknu eigum við að leggja hana fyrir Alþingi og byggja hagstjórnina á víðtækri stefnumörkun til nokkurra ára í senn. Þannig bindum við vissulega okkur sjálf, en við leggjum grunn að stöðugleika til lengri tíma og náum hámarks ávinningi fyrir fólkið í landinu.“
Árni Páll sagði að margt bendi til þess að íslenskt samfélag sé orðið kalt og grimmt og gefi fólki ekki kleift að lifa lífinu með reisn. „Hugmynd jafnaðarstefnunnar er að fólk njóti þeirra mannréttinda að geta orðið fyrir áföllum. Að þurfa ekki að glata öllu. Við viljum búa í góðu samfélagi sem skapar öllum rúm. Vandinn í hnotskurn er ófullnægjandi bótakerfi sem tryggir ekki lífeyrisþegum fullnægjandi framfærslu.“
Þarf að opna faðm fyrir þeim sem hafa yfirgefið Samfylkingu
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hélt fyrr í dag framboðsræðu sína til formanns Samfylkingarinnar. Hún ræddi líka um húsnæðismál og sagði leigumarkaðinn ekki verða endurskoðaðan nema undir forystu Samfylkingarinnar. „Samfylkingin á ekki að vera flokkur verðtryggingar og banka í hugum fólks, eða staðnaður kerfisflokkur sem skilur ekki áhyggjur venjulegs fólks. Ég veit að við erum ekki slíkur flokkur en við verðum að tryggja að almenningur viti það líka,“ sagði hún í ræðu sinni. Hún sagðist ætla að hafa forystu um endurskoðun á áherslum og málflutningi flokksins og kalla til flokksmenn með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu, ef hún verður kosin formaður. Flokkurinn þyrfti að tala skýrt um gildismat og lýðræði, og að samkvæmt erindisbréfi flokksins væri hann flokkur jöfnuðar, jafnréttis og mannréttinda.
Sigríður sagði einnig að flokkurinn þyrfti að opna faðminn fyrir fólki sem hefði yfirgefið hann. „Við þurfum að opna faðminn og bjóða velkomið fólk sem yfirgaf okkur eða getur ekki stutt okkur vegna vonbrigða með afdrif stjórnarskrárinnar, óbreytts kvótakerfi og skuldamála heimilanna. Við þennan fjölbreytta hóp þarf að hefja samtal og byggja upp traust.“ Samfylkingin yrði að halda stjórnarskránni á lofti og tala skýrt fyrir nauðsyn breytinga.
Þá talaði hún um að ójöfnuður færi vaxandi. „Mjög efnað fólk eignast sífellt meira og notar fjárhagslega yfirburði sína til að grafa undan samfélaginu sem við eigum öll saman. Stærsta áskorun samtímans er að stöðva þessa óheillaþróun og tryggja öllum mannsæmandi kjör. Það verður aðeins gert með sterkri verkalýðshreyfingu og öflugum stjórnmálaflokki sem berst fyrir jöfnuði. Samfylkingin er og á ætíð að vera slíkur flokkur."