„Þetta er atburðarráðs sem er lyginni líkust og sýnir ótrúlegan skort á sjálfstrausti hjá ríkisstjórnni í þessu máli,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðum við Evrópusambandið án þess að þau slit hafi fengið þinglega meðferð. „Að hún skuli í laumuspili reyna að breyta niðurstöðu Alþingis án þess að spyrja þingið sjálft er ótrúlegt, en það er vegna þess að ríkisstjórnin óttast viðbrögð þings og þjóðar.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti nú rétt klukkan sex að íslenskum tíma formanni Evrópusambandsins, sem er utanríkisráðherra Lettlands, bréf um að ríkisstjórn Íslands líti ekki lengur svo á að Íslands sé í hópi umsóknarríkja og að hún fari þess á leit við sambandið að það taki mið af því hér eftir.
Árni Páll segist fyrst hafa heyrt af tillögunni í fréttum RÚV klukkan sex. „Þetta er tillaga sem hefur ekkert þjóðréttarlegt gildi og er ekki annað en niðurstaða úr kaffispjalli nokkurra manna sem allir vissu fyrir að hafa ætlað sér að hafa þjóðarviljan í þessu máli að engu. Alþingi gaf umboð til viðræðna og Alþingi þarf að afturkalla það umboð til að Ísland teljist ekki lengur umsóknarríki. Þarna er líka verið að virða að vettugi þá skýru lagaskyldu um að það verði að hafa samráð við utanríkismálanefnd varðandi allar meiriháttar ákvarðanir í utanríkismálum. Þeir telja þá líklegast að þetta sé ekki meiriháttar ákvörðun.“