Árni Pétur Jónsson hefur óskað eftir því að láta af störfum sem forstjóri Skeljungs. Þetta greinir hann frá í fréttatilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla fyrr í dag.
Í tilkynningunni segir Árni Pétur að honum hafi borist tölvupóstur frá fyrrum samstarfskonu hans í öðru fyrirtæki, þar sem hann var yfirmaður hennar fyrir um 17 árum síðan. „Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk,“ bætir hann við.
Hann segir að konan hafi ekki sakað hann um ofbeldi, áreiti eða einhvers konar brot gegn lögum, heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun.
„Þrátt fyrir að ég hafi á engan hátt gerst brotlegur við lög þá átta ég mig á því að viðmið og viðhorf hafi breyst í samfélaginu og er það vel,“ segir Árni Pétur í tilkynningu sinni. „Met ég stöðuna þannig að mál þetta kunni að valda fyrirtækinu og samstarfsfólki óþægindum. Ég hef því óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Skeljungi hf.“
Árni Pétur var ráðinn forstjóri Skeljungs í ágúst 2019. Hann var forstjóri Teymis hf þegar það var skráð í Kauphöll Íslands auk þess sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum. Hin síðari ár hefur Árni Pétur verið forstjóri Tíu Ellefu (10-11)/Iceland Verslun (Iceland) og Basko, en seldi hlut sinn 2016.
Árni hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, svo sem Lyfju, Securitas, Skeljungs, Pennans, Borgunar og Eldum rétt. Þá hefur hann einnig komið að stjórnun símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og sömuleiðis hjá Bónus í Færeyjum.