Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og oddviti Sjálfstæðismanna í kosningunum þar, bað forstöðumenn í stjórnsýslu Reykjanesbæjar um að skrifa greinar um sig og fjárútlát bæjarins til tónlistarkennslu í tölvupósti skömmu fyrir miðnætti 21. maí síðast liðinn. Kvartar Árni þar undan því að honum þyki vanta upp á stuðning kennara við vel útilátinn aðbúnað tónlistarskólans sem bæjarstjórinn kom til leiðar á kjörtímabilinu sem er að ljúka.
Kjarninn hefur undir höndum tölvupóstsamskipti hans og Haralds Árna Haraldssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, þar sem oddvitinn lýsir furðu sinni á því að hann sitji „nú undir ámæli fyrir að hafa hvergi gefið eftir í aðbúnaði fyrir tónlistarskólann!“
Skeytið sendi Árni jafnframt á Magnús B. Hallbjörnsson og Hrefnu Gunnarsdóttur umsjónamenn upplýsinga- og tæknimála hjá bæjarfélaginu og Brynjar Harðarson skólasafnsvörð í Heiðarskóla. Allir á póstlistanum „Forstöðumenn RNB“ fengu skeytið líka.
Haraldur Árni svarar oddvitanum morguninn eftir með þeim fyrirvara að hana ætli hann að skrifa út frá faglegum sjónarmiðum, enda vilji hann ekki blanda sér í pólitíkina. Hann bætir við: „[...] þótt auðvitað megi túlka slíka grein skrifaða á þessum tíma, sem pólitíska grein.“
Grein eftir Harald Árna fannst ekki í lauslegri vefleit í dag. Lesa má tölvupóstsamskiptin hér.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var fluttur í Hljómahöll í vor þar sem hann komst í veglegt húsnæði eftir að hafa liðið húsnæðisskort alla tíð. Fyrsta skóflustunga var tekin að húsinu í byrjun árs 2008 og var þá áætlaður kosnaður við bygginguna þá 1,4 milljarðar króna. Síðan hefur verkinu verið frestað og svo áfram haldið árið 2009 án þess að full fjármögnun væri fyrir hendi.
Víkurfréttir greindu svo frá því í apríl í fyrra að áætlaður kosnaður við að ljúka framkvæmdum á húsinu nemi 353 milljónum króna.
Lofaði Pólverjum vel launuð störf
Árni Sigfússon bæjarstjóri komst nýlega í fréttir eftir að bréf á pólsku sem sent var á pólska innflytjendur í Reykjanesbæ þar sem viðtakendum er lofað fjölda nýrra starfa sem launa 500 til 600 þúsund krónur á mánuði. Atvinnurekendur í bænum voru síður en svo ánægðir með útspil Árna og þykir það ólíðandi að frambjóðandi til bæjarstjórnar lofi slíku fyrir hönd einkafyrirtækja.
Jafnframt var það gagnrýnt að Árni skuli bjóða kjósendum sínum á bæjarskrifstofuna til skrafs í aðdraganda kosninga. Hafa mótframbjóðendur gagnrýnt það og sagt ósmekklegt.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks hruninn
Könnun Fréttablaðsins þann 14. maí sýnir að fylgi Sjálfstæðisflokksins í bænum hefur hrunið síðan árið 2010 þegar síðast var kosið til sveitastjórna. Flokkurinn, undir forystu Árna Sigfússonar, hlaut þá 52,8 prósent atkvæða og fékk sjö fulltrúa kjörna í bæjarstjórn ellefu fulltrúa. Í könnuninni fær flokkurinn aðeins 30,8 prósent. Samfylkingin er næst stærst með 19,6 prósent og Frjálst afl með 18,6 prósent. Önnur framboð fá um eða yfir 10 prósent.
Ef niðurstöður könnunar Fréttablaðsins reynast réttar í kosningum verður Árni þó enn í lykilstöðu við stjórnarmyndun enda dreifist fylgið nokkuð jafnt á aðra flokka. Áhugavert er jafnframt að sjá að öll framboðin virðast vera að fá fulltrúa í bæjarstjórn; Sjálfstæðisflokkur fær fjóra, Samfylkingin og Frjálst afl tvo hvort og Framsókn, Bein leið og Píratar deila með sér þremur fulltrúum.