Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, verður nýr bæjarstjóri Kópavogs. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa náð samkomulagi um myndun meirihluta í Kópavogi og kynntu málefnasamning flokkanna á blaðamannafundi á Gerðarsafni síðdegis.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk hélt í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fulltrúa en Framsóknarflokkurinn bætti við sig einum.
Íbúahópurinn Vinir Kópavogs kom af krafti inn í kosningabaráttuna. Um er að ræða nýtt framboð sem hefur m.a. lagt áherslu á breytta skipulagsstefnu í bæjarfélaginu. Flokkurinn fékk tvo fulltrúa kjörna og mun mynda minnihluta í bæjarstjórn ásamt fulltrúum Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar, en hver flokkur fékk einn fulltrúa kjörinn. Hvorki Vinstri græn né Miðflokkurinn náðu kjöri í kosningunum að þessu sinni.
Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, verður formaður bæjarráðs. Embætti forseta bæjarstjórnar mun skiptast á milli flokkanna og mun fulltrúi frá hvorum flokki sinna embættinu helming kjörtímabilsins.
Ásdís tekur við stöðu bæjarstjóra af Ármanni Kr. Ólafssyni sem hefur verið bæjarstjóri í Kópavogi síðustu tíu ár. Ármann var fyrst kjörinn í bæjarstjórn árið 1998 og á að baki um 480 fundi í bæjarstjórn. Í upphafi árs tilkynnti hann að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Ásdís tilkynnti í lok janúar að hún ætlaði að bjóða sig fram í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hún varð efst í prófkjöri flokksins í mars þar sem hún fékk 1.881 atkvæði í fyrsta sæti. Alls tóku 2,521 þátt í prófkjörinu. Ásdís er hagfræði- og verkfræðimenntun og hefur starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá því í maí 2020. Þar áður var hún forstöðumaður efnahagssviðs samtakanna.