Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði að því á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“
Í viðtali við Vísi segir Ásmundur að hann sé að vekja umræðu um þessi mál. „Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu,“ segir Ásmundur og þvertekur fyrir að ummæli hans litist af rasisma.
Er að stinga upp á ofsóknum
Ummæli Ásmundar hafa vakið upp hörð viðbrögð, meðal annars úr hans eigin flokki. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi formaður Heimdallar, segir á Facebook-síðu sinni að það sé „vægast sagt átakanlegt“ að vera í sama flokki og Ásmundur. „Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan veginn við þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti."
Áslaug Arna er harðorð í garð Ásmundar.
Þá hefur þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson, gagnrýnt ummæli Ásmundar harðlega. Hann segir þessa umræðu vera um það hvort Ísland ætti að heimila ofsóknir á hendur agnarsmáum minnihlutahóp vegna trúarbragða hans. „Þú varst í alvörunni að stinga upp á ofsóknum án þess að þú endilega gerir þér grein fyrir því.
Uppfært 10:30: Magnús Júlíusson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, segir á Facebook-síðu sinni að ummæli Ásmundar vekji hjá sér óhug og séu í engu samræmi við grunngildi Sjálfstæðisflokksins um einstaklingsfrelsi og borgararéttindi. „Ásmundur Friðriksson þarf að átta sig á því að sjálfsögð borgararéttindi falla ekki niður vegna hryðjuverkaárása ofstækismanna.“
Uppfært 11:40: Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur einnig tjáð sig um málið. Hún segir Ásmund á algjörum villigötum og að hann eigi að biðjast afsökunar. „Er það virkilega hugmynd þingmannsins að fara að draga fólk í dilka eftir því hvaða trú það aðhyllist algjörlega þvert á stjórnarskrá og almenn mannréttindi í landinu.“
Færsla Ásmundar:
„Erum við örugg á Íslandi.
Í Danmörku eins og um allan heim er hugurinn með Frönsku þjóðinni. Viðbjóðsleg hryðjuverk í nafni múslima er fordæmd. Ég velti fyrir mér hvort við séum óhult á Íslandi.
Ég spyr; Hefur innanríkisráðuneytið eða lögreglan gripið til einhverra ráðstafana til að vernda Íslendinga fyrir slíkum árásum? Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir "íslenskir múslimar" hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima. Mér hefur ekki áður dottið í hug að spyrja slíkra spurninga því ég trúi alltaf á það góða í öllu fólki en það á ekki lengur við þegar öryggi þjóðarinnar er undir.“