Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra leiðir nú í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var efstur eftir fyrstu tvær tölur en sú staða hefur nú snúist eftir að 4.875 atkvæði af um 7.500 hafa verið talin. Einungis 55 atkvæðum munar á ráðherrunum tveimur þegar kemur að atkvæðum greiddum í efsta sætið.
Tveir sitjandi þingmenn flokksins eru langt frá því að ná þeim árangri sem þeir stefndu að í prófkjörinu. Brynjar Níelsson er sem stendur í sjötta sæti og Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, stefnir í afhroð og er í áttunda sæti. Á milli þeirra er Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem stendur með fimm þingmenn samanlagt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Samkvæmt nýjustu könnunum getur flokkurinn vænst þess að ná fjórum til fimm þingmönnum inn í kjördæmum höfuðborgarinnar.