Ástandsskýrslur munu fylgja öllum seldum fasteignum í framtíðinni en Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu þess efnis. Samkvæmt tilkynningu frá þingflokki Pírata munu slíkar skýrslur innihalda greinargóðar upplýsingar um ástand fasteignar og verða unnar af óháðu matsfólki með víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð. „Til þess að stuðla enn frekar að áreiðanleika, trausti og sátt í fasteignaviðskiptum verður framkvæmd matsins og innihalds ástandsskýrslnanna samræmt,“ segir í tilkynningu Pírata en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður flokksins var fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Nú ber ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að undirbúa lagabreytingar í samræmi við þingsályktunina sem er í fimm liðum. Liðirnir fimm kveða á um hvað eigi að koma fram í lögunum. Auk þess sem kveðið verður á um að slíkar skýrslur fylgi söluyfirlitum fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar og að slíkar skýrslur verði útbúnar af óháðum fagaðilum með víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð. Þá munu þeir sem útbúa ástandsskýrslurnar vera ábyrgir fyrir göllum sem rýra verðmæti fasteigna þegar mistök þeirra leiða til bótaskyldu.
Þá á lagafrumvarpið að stuðla að því að eigendur fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar að halda viðhaldsdagbók, án þess þó að það verði gert að lagaskyldu. Síðasti liður þingsályktunarinnar segir að með nýjum lögum verði hægt að ganga frá einföldum löggerningum á borð við umboð vegna sölu fasteignar, undirritun leigusamnings og kaupsamnings um fasteign rafrænt með notkun þjónustu á borð við island.is.
Muni auka traust í fasteignaviðskiptum
Í greinargerð sem fylgdi tillögunni er það sagt æskilegt að ástandsskýrsla sé meðal sölugagna. Slíkar skýrslur séu oft keyptar af tilboðsgjöfum og kaupendum. „Aðgangur þeirra að fasteign er ekki sá sami og seljanda sem getur leitt af sér lakari skýrslur auk þess sem óskilvirkt er að tveir eða fleiri tilboðsgjafar láti báðir gera ástandsskýrslu vegna sömu fasteignar. Þá getur myndast hvati við vissar markaðsaðstæður til að láta kyrrt liggja að gera slíkar skýrslur. Sem dæmi má nefna að þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerðinni.
Lagt er til að slíkar ástandsskýrslur skuli gerðar af óháðum fagaðilum, líkt og áður segir, og að framkvæmd matsins skuli fylgja samræmdum matsaðferðum auk þess sem innihald ástandsskýrslna sé samræmt. „Slíkar gæðakröfur þykja til þess fallnar að stuðla enn frekar að áreiðanleika, trausti og sátt í fasteignaviðskiptum.“
Líkt og áður segir er ekki lagt til að skylt verði að halda viðhaldsdagbækur en í greinargerðinni eru þær sagðar geta haft sambærilegan tilgang og olíudagbækur fyrir bíla. Það að geta flett upp upplýsingum um viðhald fasteignar geti aukið til muna skilvirkni í viðhaldi á fasteignum sem og aukið traust á viðskiptum með fasteignir þar sem haldin hefur verið slík viðhaldsdagbók.
Þá er einföldun á samskiptum milli seljanda og kaupanda húsnæðis sem og leigusala og leigjenda sem hægt er að ná fram með stafrænum lausnum á borð við island.is sögð vera til þess fallin að minnka kostnað við kaup og sölu, auka skilvirkni í viðskiptum, minnka flækjustig og auka öryggi neytenda.