Ásgeir Hvítaskáld hefur skrifað skáldsögu sem byggir á sannsögulegum atburðum, um morðið í Naphorni og síðustu aftökuna á Austurlandi 1786. Söfnun fyrir útgáfunni stendur yfir á Karolina Fund.
„Þetta er stórmerkileg saga sem lét mig ekki í friði,“ segir Ásgeir, sem lýsir sögunni sem átakanlegri.
„Fyrst sá ég kynningarskilti um söguna á Mjóeyrinni á Eskifirði, en þar var þessum dreng lýst sem lötum og vondum dreng. Þá hugsaði ég að það væri ekki hægt að skrifa sögu þar sem aðalpersónan væri vond. Þetta var ein hrottalegasta aftaka sem farið hefur fram á Íslandi, þar sem 23 ára gamall, ólæs, fáfróður og einfaldur drengur var hálshöggvinn. Notuð var bitlaus exi svo höggva þurfti sjö sinnum áður en höfuðið fauk af búknum,“ segir Ásgeir.
Síðar segist Ásgeir hafa rekist á aðra útgáfu af sögunni sem var öðruvísi og sá þá efnivið í sína eigin skáldsögu um atburðina. „Þegar ég las að böðullinn hefði neitað að höggva drenginn, þá sá ég möguleika í sögunni og skrifaði mína eigin útgáfu,“ segir Ásgeir.
„Þetta er örlagadrama um þrjá drengi sem struku úr vistarböndum og áttu sér draum um frelsi á fjöllum en draumurinn snerist upp í svik og hryllilegt morð. Það var gífurleg fátækt og hungursneyð í landinu en þema sögunnar fjallar um vistarböndin sem danski konungurinn setti á. Þau voru nánast þrælkun fyrir landsmenn og hentuðu Íslendingum illa. Ef bú var minna virði en þrjú kúgildi þá var fjölskyldan leyst upp og fólkið þurfti að vinna í ánauð á öðrum sveitabæjum. Sagan fjallar um allt óréttlætið sem danska réttarkerfið beitti Íslendinga fyrr á öldum. En samt þrífst ástin í hjörtum mannanna,“ segir Ásgeir.
Söfnun fyrir útgáfu bókarinnar stendur nú yfir, sem áður segir, á Karolina Fund.