Skráð atvinnuleysi mældist 4,9 prósent í nóvember mánuði sem er sama hlutfall og í mánuðinum á undan. Það þykir heldur óvænt þar sem hefðbundnar árstíðasveiflur leiða yfirleitt til þess að atvinnuleysi aukist milli október og nóvember og Vinnumálastofnun hafði spáð því að það myndi aukast lítillega undir lok árs.
Í nýbirtri mánaðaskýrslu stofnunarinnar um vinnumarkaðinn á Íslandi kemur fram að aukin eftirspurn eftir starfsfólki úr mörgum geirum skýri þessa þróun meðal annars. „Þannig er fjölgun atvinnulausra í byggingargreinum minni í nóvember en áður auk þess sem fækkun atvinnulausra í verslun er í stað fjölgunar almennt í nóvember Einnig eru breytingar á fjölda atvinnulausra í ferðaþjónustugreinum nú í nóvember yfirleitt til fækkunar í stað fjölgunar almennt í mánuðinum.“
Þrátt fyrir að atvinnuleysið hafi mælst á svipuðum slóðum og það var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á síðustu þrjá mánuði þá er vert að minna á að atvinnuleysi var sögulega nokkuð hátt í byrjun síðasta árs. Í febrúar 2020 var atvinnuleysið komið í fimm prósent og hafði ekki mælst hærra síðan í apríl 2012.
Yfir fjögur þúsund manns án atvinnu í meira en ár
Langtímaatvinnulausum fækkað lítið milli mánaða og alls höfðu 4.083 verið án atvinnu í ár eða lengur í lok nóvember. Það þýðir að af þeim 10.155 sem voru atvinnulausir á þeim tíma höfðu 40 prósent verið það í meira en tólf mánuði. Það hlutfall var 21 prósent í febrúar á síðasta ári. Fjöldi langtímaatvinnulausra er því 116 prósent meiri en hann var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Atvinnuleysið er mest á Suðurnesjum nú, eða 9,5 prósent, en atvinnustigið þar er mjög háð því að mikið sé að gera í ferðaþjónustu vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll. Atvinnuleysið hefur hríðfallið þar frá því í byrjun árs þegar það var 23,3 prósent og er nú hlutfallslega það sama og það var fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Ráðningastyrkir að renna út
Sem stendur eru enn í gildi svokallaðir ráðningastyrkir, sem greiddir eru út í tengslum við atvinnuátakið Hefjum störf. Það snýst um að ríkissjóður greiði þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum.
Samkvæmt mælaborði Vinnumálastofnunar hafa 7.393 ráðningar átt sér stað á grundvelli átaksins frá 1. mars, en um 250 ráðningar voru gerðar undir hatti þess í nóvember.
Mikill fjöldi ráðningarstyrkja rennur út á síðasta fjórðungi ársins. Í frétt sem birtist á vef RÚV í síðasta mánuði kom fram að þeim sem þegar hafa runnið út á samningi hafi aðeins um tuttugu til þrjátíu prósent snúið aftur á atvinnuleysisskrá. Haft var eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóri Vinnumálastofnunar, að það væri betri árangur en búist hafði verið við.
Í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem birt voru undir lok síðasta mánaðar, sagði að óvíst væri að hve miklu leyti ráðningarsamböndum sem byggjast á styrkjum verði viðhaldið en á móti vegi mikil ráðningaráform fyrirtækja og skortur á starfsfólki. „Það gæti hægt á hjöðnun atvinnuleysis eða það jafnvel aukist tímabundið ef margir koma aftur inn á skrá þar sem pörun leitenda og nýrra starfa getur tekið tíma.“