ÁTVR hefur ekki náð að komast að samkomulagi um leigusamning við eigendur atvinnuhúsnæðis að Fiskislóð 10 á Grand. Það húsnæði var það eina sem sem uppfyllti skilyrði um staðsetningu af þeim fjórum kostum sem boðnir voru fram eftir að ÁTVR auglýsti eftir leiguhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík í haust.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR staðfestir við Kjarnann að ekki hafi náðst samkomulag við húseigendur og segir að eins og staðan sé í dag sé „ólíklegt að það verði opnuð Vínbúð á Fiskislóð 10“.
Það vakti athygli blaðamanns atvinnuhúsnæðið við Fiskislóð, sem er í eigu Reita, hefur verið auglýst til leigu á fasteignavef mbl.is og eflaust víðar.
„Það er rétt ályktað hjá þér að það hefur ekki náðst samkomulag við húseigendur á Fiskislóð 10,“ segir Sigrún Ósk í skriflegu svari til blaðamanns, sem einnig spurði hvort í ljósi þessa væru einhver frekari tíðindi af húsnæðismálum Vínbúðarinnar í miðborg Reykjavíkur. Svo er ekki.
„Engin önnur tíðindi en við höldum áfram að vinna með málið,“ segir Sigrún Ósk. Í haust óskuðu Ríkiskaup fyrir hönd ÁTVR eftir því að taka á leigu um 400-600 fermetra atvinnuhúsnæði undir nýja Vínbúð á svæði sem „afmarkast af Snorrabraut, Hverfisgötu, Tryggvagötu, Geirsgötu og til sjávar í norður“, eins og það var orðað í auglýsingu á útboðsvefs hins opinbera.
Fiskislóð 10 var einn þeirra kosta sem boðinn var fram, en einnig var boðið fram húsnæði við Hallgerðargötu 19-23, Hringbraut 119-121 og á Hallveigarstíg 1, en engin hinna þriggja staðsetninganna uppfyllti skilyrði ÁTVR um staðsetningu undir nýja Vínbúð.
Samfara leit að nýju plássi undir Vínbúð miðsvæðis í borginni hefur ÁTVR verið með það til skoðunar að loka mögulega Vínbúðinni í Austurstræti. „Austurstrætisbúðin er óhentug. Hún er á tveimur hæðum, við erum með lagerinn niðri, og svo er bara mjög erfitt um flutninga til og frá búðinni,“ hafði Viðskiptablaðið eftir Sigrúnu Ósk í október í fyrra.
Borgarstjóri handsalar miðborgarbúð við forstjóra ÁTVR
Rúmum mánuði fyrir borgarstjórnarkosningar sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þó frá því að hann hefði átt fund með Ívari J. Arndal forstjóra ÁTVR, þar sem handsalað hefði verið að „að búðin í Austurstræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum“.
Borgarstjórinn sagði jafnframt frá því að forstjóri ÁTVR hefði upplýst að ef Austurstrætinu yrði lokað „yrði auglýst eftir 1-2 vel staðsettum en minni verslunum á miðborgarsvæðinu til að koma í staðinn“ og þá kom einnig fram í Twitter-færslum Dags að ÁTVR hefði fengið skipulagsráðgjafa með sér í lið til að vinna að mörkun stefnu um staðsetningu Vínbúða.
Nokkur umræða hafði áður skapast um mögulegan flutning Vínbúðarinnar úr hjarta miðborgarinnar og ÁTVR hlotið nokkra gagnrýni fyrir að gera það að skilyrði fyrir staðsetningu nýrrar búðar að þar væri nóg af bílastæðum sem mætti sérmerkja fyrir viðskiptavini búðarinnar.
Umræða um hið sama átti sér sömuleiðis stað þegar Vínbúðinni í Borgartúni var lokað í fyrra og þá hafa fleiri ákvarðanir ÁTVR um staðsetningar verslana sætt gagnrýni á umliðnum árum, til dæmis staðsetning nýrrar verslunar fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ, en áður var ÁTVR með útibú á Garðatorgi. Bæjaryfirvöld í Garðabæ furðuðu sig á því að ÁTVR vildi ekki opna verslun miðsvæðis í bænum. Einnig mætti nefna brotthvarf ÁTVR úr Firðinum í Hafnarfirði og yfir í Helluhraun, sem er fremur bílmiðaður verslunarkjarni.
Það er Grandinn svo einnig, en nú er sem áður segir „ólíklegt“ að ný Vínbúð opni þar og allt á huldu hvar ný Vínbúð á miðborgarsvæðinu verður staðsett, ef af verður.