RÚV Sala, dótturfélag RÚV sem ber ábyrgð á allri sölu sem ríkisfjölmiðilinn skilgreinir sem tekjuaflandi samkeppnisrekstur, þar með talið auglýsingasölu, aflaði tæplega 2,4 milljarða króna í tekjur í fyrra. Þar af voru 2.206 milljónir tekjur af auglýsingasölu, sem var 402 milljónum krónum meira en RÚV Sala aflaði með sölu slíkra á árinu 2020. Tekjur RÚV af sölu auglýsinga jukust því um næstum 25 prósent milli ára. Til samanburðar má nefna að rekstrarstyrkir til einkarekinna fjölmiðla, sem úthlutað er árlega, voru tæplega 389 milljónir króna í fyrra. Þeir dreifðust á 19 mismunandi miðla.
Hagnaður af rekstri RÚV Sölu, það sem sat eftir inni í dótturfélaginu eftir að það var búið að gjaldfæra viðskipti við móðurfélag sitt upp á tvo milljarða króna og greiða laun starfsmanna, var 124 milljónir króna á árinu 2021.
Þetta má lesa úr ársreikningi RÚV Sölu fyrir árið 2021, en félagið tók til starfa í byrjun árs 2020.
Laun sölumanna rúmlega 20 prósent hærri
Hjá RÚV Sölu voru 16 stöðugildi að meðaltali í fyrra sem höfðu það hlutverk að afla þessara tekna. Kostnaður vegna heildarlauna og lífeyrissjóðsgreiðslna hjá dótturfélaginu var alls 227 milljónir króna. Það þýðir að meðaltal kostnaðar vegna launa og gjalda starfsmanna RÚV Sölu var 1.182 þúsund krónur á mánuði. Einar Logi Vignisson, framkvæmdastjóri RÚV Sölu var með um 1,7 milljónir króna í heildarlaunakostnað að meðaltali. Í árslok 2021 hafði starfsmönnum RÚV Sölu fjölgað um einn í 17.
Þeim launum er þó nokkuð misskipt innan RÚV en Stefán Eiríksson útvarpsstjóri er til að mynda með 2,5 milljónir króna í heildarlaun og lífeyrissjóðsgreiðslur í fyrra. Samkvæmt samantekt Frjálsrar verslunnar um tekjur landsmanna á árinu 2020 voru tólf fjölmiðlamenn sem starfa innan RÚV með meira en milljón krónur á mánuði í laun.
Kostnanir og dagskrárliðir rofnir
Tekjur RÚV voru 7,1 milljarðar króna í fyrra. Þær eru að uppistöðu tvennskonar: tekjur af almannaþjónustu sem koma í formi framlags úr ríkissjóði og tekjur af samkeppnisrekstri. Alls fékk RÚV næstum 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði í fyrra sem var ívið minna en þeir 4,9 milljarðar sem ríkisfjölmiðillinn fékk þaðan 2020. Síðan eru áðurnefndar samkeppnistekjur upp á 2,4 milljarða króna þar sem auglýsingasalan skiptir mestu.
Til að ná inn þeim rúmu tveimur milljörðum króna sem RÚV Sala aflaði í fyrra seldi félagið hefðbundnar auglýsingar í auglýsingatíma á sjónvarps- og útvarpsstöðvum ríkismiðilsins, en RÚV má ekki auglýsa á netinu.
Auk þess voru ákveðnir dagskrárliðir rofnir með auglýsingahléum á síðasta ári, og eru tilgreint í ársskýrslu RÚV hverjir þeir eru. Um er að ræða Alla leið, Bræðsluna, Edduverðlaunin, Eurovision, Vikuna með Gísla Marteini, Gettu betur, Klassíkina okkar, kosningasjónvarpið, Ólympíuleika, Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleika, Silfrið, Skrekk, Skólahreysti, Söngvakeppnina, Söngkeppni framhaldsskólanna og Tónaflóð.
Þá voru fjölmargir dagskrárliðir kostaðir á árinu 2021. Þeir eru líka tilgreindir í ársskýrslu RÚV. um er að ræða bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Verbúð, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM í íshokkí, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ófærð, Ólympíuleikar, Ólympíumót fatlaðra, Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Tónaflóð.