Ný útlán bankakerfisins til húsnæðisuppbyggingar, að frádregnum uppgreiðslum, nam 5,12 milljörðum króna í febrúar, en það er mesta aukning í útlánaflokknum frá því í júní 2016. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabankans um stöðu bankakerfisins, sem voru birtar í vikunni.
Minni fjárfesting eftir faraldurinn
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan hafa útlán til húsnæðisuppbyggingar dregist töluvert saman frá seinni hluta ársins 2019. Samdrátturinn jókst svo töluvert eftir að faraldurinn hófst, en ný útlán að frádregnum uppgreiðslum voru neikvæð nær alla mánuði frá mars 2020 til nóvembermánaðar í fyrra.
Íslandsbanki sagði síðasta haust að samdrátturinn í slíkum útlánum væri ekki tilkominn vegna þess að bankinn hefði synjað verkefnum, frekar mætti skýra hann með minni eftirspurn og hraðari uppgreiðslum á útistandandi lánum.
Eftirspurnarminnkunin sést á tölum Hagstofu um íbúðafjárfestingu, sem dróst saman eftir að faraldurinn hófst í byrjun árs 2020. Fjárfestingin jókst svo ekki af ráði árin 2020 og 2021, þrátt fyrir að íbúðaverð hafi aukist töluvert á þessum tíma.
Lánaaukningin á enda
Verðhækkunina má rekja til aukinnar ásóknar heimilanna í fasteignalán, sem var meðal annars tilkomin vegna mikilla vaxtalækkana Seðlabankans á árinu 2020 og aukins sparifés vegna takmarkaðra neyslumöguleika á tímum faraldursins.
Myndin hér að neðan sýnir ný útlán til fasteignakaupa að frádregnum uppgreiðslum, en þar má sjá mikla aukningu eftir að faraldurinn hófst í mars 2020. Útlánaaukningin náði hámarki um haustið 2020, en hélst mikil fram að lokum síðasta sumars. Síðan þá hefur nokkuð dregið úr aukningunni eftir því sem íbúðum á sölu hefur fækkað mikið.
Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði virðist þó enn vera mikil, en samkvæmt síðustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar seljast íbúðir hratt upp og á miklu yfirverði.
Seðlabankinn hefur bæði hækkað stýrivexti og þrengt skilyrði fyrir lántöku á húsnæðismarkaðnum til að reyna að tempra þessa eftirspurn, en þær aðgerðir hafa enn sem komið er ekki skilað miklum árangri.
Arðbærara að byggja núna
Í nýlegri greiningu sinni sagði hagfræðideild Landsbankans að miklar verðhækkanir á íbúðarhúsnæði umfram laun og byggingarkostnaðar hvetji til íbúðauppbyggingar. Deildin benti einnig á að íbúðum í byggingu hafi fjölgað á höfuðborgarsvæðinu á síðustu misserum, en því megi gera ráð fyrir að framboð fari að aukast á markaðnum til þess að anna eftirspurn í framtíðinni.
Áður en útlán bankanna til byggingargeirans drógust saman árið 2019 voru þau um sex prósent af heildarútlánum bankans. Í fyrrahaust voru þau hins vegar einungis um 4,2 prósent af útlánunum, en síðan þa hafa þau hækkað aftur upp í tæp fimm prósent. Aftur á móti hafa fasteignalán orðið mun stærri hluti af útlánasafni bankanna á síðustu tveimur árum, en þau fóru úr 40 prósentum og upp í 50 prósent.