Breytt fyrirkomulag á strandsiglingum með tíðari siglingum á hafnir landsbyggðarinnar mun ekki skila þeim árangri sem stefnt er að í nýrri þingsályktunartillögu um auknar strandsiglingar að mati Eimskips. Þetta kemur fram í umsögn Eimskips við þingsályktunartillögu um könnun á hagkvæmni strandflutninga sem birt var í gær. Kallað er eftir því að frekar verði undirbúningur fyrir vistvæna flutningabíla hafinn með viðeigandi innviðauppbyggingu og fjárfesting í vegakerfinu aukin.
Í samantekt umsagnarinnar kemur fram að Eimskip telji það ólíklegt að auknir sjóflutningar hefðu jákvæð áhrif á flutningskostnað þegar á heildina sé litið. Nauðsynlegt sé að meta ávinning af strandflutningum með tilliti til allra þátta sem hafa áhrif og að meta þurfi raunverulega eftirspurn eftir strandflutningum og hvaða magn færist úr vegaflutningum yfir í strandskip. Þá segir í umsögninni að stór hluti flutninga í landflutningakerfinu sé flutningur ferskra afurða sem kallar á hraða og tíða þjónustu. Að mati Eimskips mun frekari greining leiða í ljós að auknir strandflutningar óraunhæfur og óhagkvæmur kostur.
Strandsiglingar dragi úr sliti á vegum og minnki kolefnisspor
Þingsályktunartillagan sem um ræðir fjallar um að könnuð verði hagkvæmni þess að halda úti tveimur strandflutningaskipum til að flytja vörur um landið. Með auknum strandflutningum megi minnka vöruflutninga á þjóðvegum landsins og draga þannig úr sliti á vegakerfinu. Einnig er lagt til að skoðaður verði sá möguleiki á að nýta skipin til sorpflutninga og sem björgunarskip í neyðartilfellum.
Í greinargerð með tillögunni er það sagt umhverfisvænt að flytja þungaflutninga af vegakerfinu því þannig megi minnka kolefnisspor í flutningum. Þar að auki vega þungaflutningar þyngst þegar kemur að sliti þjóðvega. „Talið er að áhrif þyngdar hafi fjórða veldis áhrif á niðurbrot veganna. Þetta þýðir að öxull sem er 10 tonn að þyngd hefur 10 þúsund sinnum meiri áhrif á niðurbrot vega en öxull sem er 1 tonn,“ segir í greinargerðinni.
Nútímalegri og umhverfisvænni kostur
Strandsiglingar eru sagðar nútímalegri og umhverfisvænni kostur en landflutningar í greinargerðinni, þar sem siglingarnar losi minni koltvísýring. Þar segir einnig að flutningur, losun og urðun sorps verði eitt stærsta og mest krefjandi verkefni sveitarfélaga í nánustu framtíð og flutningsþörf á sorpi muni aukast.
Stærstan hluta landflutninga, fyrir utan ferskar afurðir, megi færa í strandsiglingar með tilheyrandi sparnaði fyrir fyrirtæki og einstaklinga, að mati flutningsmanna tillögunnar. „Góðar líkur eru á því að sjóflutningar yrðu mun ódýrari en landflutningar. Því gæti endurvakning strandflutninga haft bein áhrif á afkomu heimila og fyrirtækja um land allt,“ segir í greinargerð. Þó þurfi að skoða hafnargjöld við rekstur strandferðaskipa en þau eru sögð mun hærri en sá kostnaður sem leggst á landflutninga.
Lítil eftirspurn vegna langs flutningstíma
Eimskip gerir nokkrar athugasemdir við tillöguna og greinargerð hennar í umsögn sinni. Þar er tekið undir þau sjónarmið að hagkvæmara sé að flytja ýmsa vöru í gámum eða þungavöru með skipum frá Reykjavík til hafna á landsbyggðinni frekar en með bílum. Eftirspurn eftir þeim flutningamáta hafi hins vegar verið lítil vegna of langs flutningstíma. Tekið er fram að gámaflutningar séu hins vegar í lágmarki á þjóðvegum landsins og að viðskiptavinir félagsins nýti sér skipasiglingar vel í gámaflutningum.
Í umsögninni er sagt að breytt fyrirkomulag með tíðari siglingum muni ekki skila þeim árangri sem stefnt er að í þingsályktunartillögunni. Ástæðan sé sú að margt sem flutt er út á landsbyggðina, til að mynda öll neysluvara, kalli á tíðar ferðir. Þá séu engir miðlægir vörulagerar á landsbyggðinni og samkvæmt Eimskip hafa viðskiptavinir félagsins ekki áhuga á að byggja upp slíka lagera. Lagerinn sé því stöðugt á ferðinni: „Það má því segja að í núverandi fyrirkomulagi sé vörulager landsbyggðarinnar í raun á leiðinni þangað um þjóðvegakerfið á degi hverjum.“
Fiskur, bæði nýveiddur og úr eldi, kalli á hraðan flutning
Ferskur fiskur á leið í vinnslu er sagður uppistaðan í landflutningum hér á landi. Lönduðum fiski þarf að skila í vinnslu áður en vinna hefst að morgni næsta dags og þaðan er hann fluttur ferskur í útflutningsskip eða í flug. Þetta kalli á daglega þjónustu, fimm til sjö daga vikunnar. Það sama gildi um fiskeldið en samkvæmt greinargerðinni er gert ráð fyrir að umsvif í fiskeldi eigi eftir að aukast umtalsvert á næstu misserum.
Að mati fyrirtækisins myndi því óverulegur hluti sem nú er í landflutningakerfinu færast þaðan í strandsiglingar. Með því að færa vöruflutninga af vegum landsins yfir í skip væri verið að fara aftur til fortíðar að mati fyrirtækisins, þvert á skoðun flutningsmanna þingsályktunartillögunnar. Þá segir í umsögninni að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar eða forsendur til að meta hvaða áhrif sú þjónusta sem lýst er í tillögunni muni hafa á kolefnisspor flutnings.
Kalla eftir innviðauppbyggingu
Það er nefnt í umsögninni að þess er ekki langt að bíða flutningabílar verði farnir að ganga fyrir umhverfisvænni orkugjöfum er nú tíðkast, ef til vill vetni, og því þurfi að búa innviði undir slík orkuskipti. „Ef vetni yrði framtíðarorkugjafinn til að nota á flutningabíla sem keyra á lengri leiðum þá vantar að koma á fót vetnisframleiðslu og byggja upp innviðakerfi landið um kring til að hægt væri að nota slíka bíla hvar sem er á landinu,“ segir í umsögninni.
Einnig er vikið að uppsafnaðri fjárfestingaþörf í vegakerfi landsins og það sagt vera bæði bráðnauðsynlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að styrkja og endurbæta vegakerfið. Vísað er innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga í umsögninni en samkvæmt skýrslunni er uppsöfnuð fjárfestingaþörf í vegakerfinu um 110 milljarðar króna.