Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hf. og hugbúnaðarfyrirtækið Init ehf. eru hvort um sig ofarlega á lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki, sem kynntur er í dag. Í flokki stórra framúrskarandi fyrirtækja er Samherji í 4. sæti á lista á meðan að Init er í 4. sæti í flokki lítilla framúrskarandi fyrirtækja.
Vera þessara tveggja félaga við toppinn á listum yfir framúrskarandi fyrirtæki kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir, enda hafa bæði Samherji og Init verið til umfjöllunar á umliðnum misserum fyrir hluti sem afar erfitt er að tengja við orðið framúrskarandi.
Samherji og stjórnendur þess félags eru til rannsóknar hjá yfirvöldum hérlendis vegna meintra mútugreiðslna í rekstri félagsins í Namibíu og sömuleiðis eru skattamál félagsins til rannsóknar.
Í vor var einnig opinberað að Samherji rak áróðursstríð gegn blaðamönnum og ákveðnum fjölmiðlum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins. Það var gert með vitund og vilja æðstu yfirmanna fyrirtækisins.
Fyrr á árinu sagði fréttaskýringarþátturinn Kveikur frá mörghundruð milljóna króna viðskiptum Init, sem hafði árum saman haldið utan um tölvukerfi fyrir helstu lífeyrissjóði landsins, við starfsmenn og hluthafa félagsins. Fram kom í umfjöllun Kveiks að svo virtist sem eigendur Init hefðu reynt að fela raunverulegan hagnað sinn af vinnu við tölvukerfi lífeyrissjóðanna fyrir eigendum og notendum kerfisins.
Í úttekt sem Reiknistofa lífeyrissjóða (RL) lét endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young vinna vegna málsins kom fram að fyrirtækið hefði brotið á samningum sínum við RL og að ekki fengist séð að eðlilegur rekstrartilgangur hefði að öllu leyti legið að baki greiðslum frá Init til félaga í eigu hluthafa og starfsmanna. Í gær tilkynnti RL að lífeyrissjóðir hyggist taka yfir rekstur á hugbúnaðarkerfinu úr höndum Init, vegna brota félagsins á samningi þess við RL.
Hvað þarf til að vera „framúrskarandi“ hjá CreditInfo?
Framúrskarandi fyrirtæki er vottun sem félagið CreditInfo býður íslenskum fyrirtækjum upp á að kaupa, meðal annars til þess að „nýta hana í markaðsefni og ásýnd fyrirtækisins.“ „Þannig sjá bæði viðskiptavinir, starfsfólk og samstarfsaðilar að þú ert með heilbrigða starfsemi í hraustum rekstri,“ segir á vef CreditInfo – og fyrir neðan er hnappur sem á stendur „Já takk kaupa vottun“.
Ef fyrirtæki kaupir vottun, sem kostar 99.000 kr. án vsk. fær félagið, að því gefnu að það uppfylli ákveðin skilyrði, viðurkenningarskjal, bæði í ramma og á rafrænu formi, og leyfi til að nota merki Framúrskarandi fyrirtækja í kynningarefni.
„Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði. Aðeins afreksfólk atvinnulífsins stenst þær ströngu kröfur sem gerðar eru til Framúrskarandi fyrirtækja og þær gefa vísbendingar um að þau séu líklegri til að ná árangri og standast álag en önnur,“ segir í kynningarefni á vef CreditInfo. Þar fyrir neðan eru skilyrðin þulin upp:
- Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
- Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
- Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
- Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
- Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
- Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
- Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
- Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
- Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
- Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár
Alls eru 878 fyrirtæki á lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í ár. Í fyrra voru þau 842 talsins.