Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn við sveitarstjórnarkosningarnar sem haldnar verða í maí á næsta ári.
Hann greindi frá þessu á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Mosfellsbæ í gærkvöldi en Haraldur er oddviti Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og hefur verið bæjarstjóri frá árinu 2007.
Í tilkynningu vegna þessa segir Haraldur að hann hafi verið búinn að hugsa með sér að þetta yrði síðasta kjörtímabil hans. „Ég hef verið bæjarstjóri frá árinu 2007 sem er lengst allra sem gengt hafa þessu embætti í Mosfellsbæ. Á þessum tíma hefur íbúum fjölgað um helming og þó ég segi sjálfur frá hefur alveg ótrúleg uppbygging átt sér stað hér á umliðnum árum.“
Hann segist muna gegna starfi bæjarstjóra af trúmennsku þar til í vor þegar kjörtímabilinu lýkur.