Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, segist harmi sleginn vegna þessa mikla fjölda fólks sem nú flýr stríðsátök, meðal annars í Sýrlandi, og leggur í hættuför til þess að freista þess að öðlast betra og öruggara líf. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC, kallar hann eftir samstöðu ríkja til þess að takast á við þann mikla vanda sem milljónir manna séu í. Ríki heimsins, ekki síst í Evrópu, verði að leggja sitt af mörkum. Stækka þurfi öryggisnet sem aðstoði flóttamenn og efla þurfi alla þjónustu sem dregið geti úr vandanum.
„Stærstur hluti þessa fólks sem er á flótta, og leggur upp í hættuför til þess að komast til Evrópu, er á flótta vegna stríðástands í ríkjum eins og Sýrlandi, Írak og Afganistan [...] Alþjóðasamfélagið verður einnig að beita sér með afgerandi hætti til þess að binda endi á átökin sem eru rót vandans,“ sagði Ban Ki-Moon.
Fjöldi flóttamanna sem fór yfir landamæri til Evrópuríkja þrefaldaðist í síðasta mánuði, miðað við sama mánuð í fyrra, og fóru 107.500 manns yfir landamærin. Stærstur hluti þeirra dvelur nú í flóttamannabúðum, einkum tjaldbúðum, sem komið hefur verið upp víða. Stærstu búðirnar eru á Ítalíu og Grikklandi, en yfirvöld í Austurríki og Þýsklandi, ásamt fleiri ríkjum, vinna nú að því að koma upp búðum til þess að geta tekið á móti tugum þúsunda til viðbótar við þann fjölda sem þegar dvelur í búðum í löndunum.
Talið er að rúmlega tuttugu milljónir manna séu nú á flótta vegna stríðsátaka í Sýrlandi, Írak og Afganistan, og einni í Norður-Afríku. Fjölgunin verið hröð á undanförnum sex mánuðum, og óttast Sameinuðu þjóðirnar að hópurinn muni stækka hratt eftir ekkert verið gert, sem bundið getur enda á átökin sem fólkið er að flýja.
Þá hafa þjóðir heimsins verið hvattar til þess að leggja sitt af mörkum til þess að aðstoða þá sem eru á flótta.