Bernhard Esau og Sacky Shanghala, namibísku ráðherrarnir tveir sem setið hafa í gæsluvarðhaldi síðan í árslok 2019 og sæta ákærum vegna Samherjamálsins í Namibíu, munu ekki lengur fá að ferðast til Bandaríkjanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins í dag, en þeir Esau og Shanghala eru sagðir hafa grafið undan trú namibísku þjóðarinnar á lýðræðislegum stofnunum með því að hafa notað pólitísk áhrif sín og opinberar valdastöður til að hagnast persónulega með þátttöku í markverðri spillingu.
Bandarísk yfirvöld ætla einnig að meina eiginkonu Esau og syni hans að ferðast til Bandaríkjanna.
Segir utanríkisráðuneytið í tilkynningu að þessi aðgerð sé til staðfestingar á þeirri ætlan Bandaríkjanna að styðja við aðgerðir gegn spillingu í Namibíu, sem séu lykillinn að farsælli framtíð landsins.

Utanríkisráðuneytið bandaríska segist jafnframt ætla að halda áfram að nota aðferðir sem þessar til þess að draga spillta menn til ábyrgðar, bæði í Afríku og víðar um heim.