Hvergi í heiminum fellur til jafn mikið af plastúrgangi og í Bandaríkjunum og stefnubreytingar er þörf til að takast á við vandann, segir í nýrri skýrslu nefndar Bandaríkjaþings. Vandinn hefur verið að byggjast upp í áratugi, segir í skýrslunni. Undraefnið plast sem fundið var upp á síðustu öld og gjörbreytti allri framleiðslu hefur leitt af sér alþjóðlegt vandamál því plast, sem aðallega er búið er til úr olíu, „virðist vera að safnast upp hvert sem litið er“.
Árið 2016 er talið að plastúrgangur í Bandaríkjunum hafi numið 42 milljónum tonna sem er um tvisvar sinnum meira en féll til í Kína og meira en féll til innan Evrópusambandsins alls.
„Magnið er óhugnanlega mikið,“ hefur Washington Post eftir Margaret Spring, yfirvísindamanni hjá Monterey Bay-stofnuninni og formanni þingnefndarinnar sem rannsakaði plastúrganginn.
Í skýrslunni kemur fram það mat vísindamanna að 1-2 milljónir tonna af plastúrgangi í landinu fari út í umhverfið á hverju ári. Talið er að um átta milljónir tonna af plasti endi árlega í sjónum á heimsvísu og að með sama áframhaldi verði tonnin 54 milljónir í lok áratugarins. Vísindamennirnir benda á að það myndi þýða að meira plastrusl færi í hafið en veitt væri úr því af fiski.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti á síðasta ári að kalla eftir skýrslu um plastvandann og lögðu vísindamenn í bæði Bandaríkjunum og Kanada hönd á plóg við vinnu hennar.
„Niðurstaða skýrslunnar er alvarleg áminning um umfang þessa vanda,“ segir þingmaðurinn og Repúblikaninn Dan Sullivan sem átti sæti í nefndinni. Hann segir að í skýrslunni séu saman tekin gögn frá „okkar færustu vísindamönnum“ sem eigi að verða vegvísir inn í framtíðina. Grípa þurfi til frekari lagasetninga til að vernda lífríki sjávar svo ekki verði grafið undan fiskveiðum og efnahagslífi almennt.
„Við getum ekki lengur leitt hjá okkur þátt Bandaríkjanna í plastmengun, einni stærstu ógn sem steðjar að umhverfinu á okkar tímum,“ sagði í yfirlýsingu frá
Christy Leavitt, framkvæmdastjóra Oceana-náttúruverndarsamtakanna.