Kaffihús í Bandaríkjunum finna enn fyrir áhrifum kórónuveirunnar vegna þess hve stór hluti Bandaríkjamann kýs enn að sinna hluta af vinnu sinni heima. Sala á kaffihúsum hrundi í kórónuveirufaraldrinum en ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu eru kaffihús þar í landi enn að glíma við afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Frá þessu er greint í frétt Reuters.
Samkvæmt nýrri greiningu frá hugveitunni Bank of America Institute er það ekki síst vegna þess hve hátt hlutfall vinnu fer enn fram innan veggja heimilisins. Samkvæmt greiningu hugveitunnar sinntu Bandaríkjamenn um þriðjungi vinnu sinnar frá heimilum sínum í júní.
„Sambandið þarna á milli er einfalt: Fólk á það til að grípa kaffibolla á leið sinni til vinnu á morgnanna eða á öðrum tímum dagsins ef það er við vinnu á skrifstofunni. Ef fólk vinnur heima er eftirspurn þeirra eftir þeim vörum sem fást á kaffihúsum líklegast lægri,“ segir í greiningu Bank of America Institute.
Þriðjungur kaffis drukkið utan heimilis
Eftirspurn eftir kaffi dróst töluvert saman í heimsfaraldrinum. Það gerðist ekki síst vegna lokana kaffihúsa en að minnsta kosti þriðjungur af kaffidrykkju fer fram utan veggja heimilsins, að því er fram kemur í frétt Reuters.
„Þó svo að neytendur geti að öllum líkindum sótt sótt sér kaffi í grennd við heimili sín í stað kaffisins sem finna má í grennd skrifstofunnar þá eru neytendur alla jafna ólíklegri til þess að fara út til þess að ná sér í kaffi ef þeir geta fengið það heima hjá sér,“ segir í skýrslunni.
Þar er enn fremur á það bent að heimavinna, sem hefur að einhverju leyti fest sig í sessi eftir heimsfaraldurinn, geti haft langvarandi áhrif á þjóðarbúskapinn.