Þegar lífeyrissjóðirnir komu aftur af alvöru inn á íbúðalánamarkað haustið 2015, með því að hækka lánshlutfall sitt og bjóða mun lægri verðtryggða vexti en bankar landsins, þá sópuðu þeir til sín viðskiptavinum. Landsmenn sýndu það með fótunum að þeir voru meðvitaðir um hvar bestu kjörin væru.
Í fyrra, samhliða því að stýrivextir Seðlabanka Íslands voru lækkaðir stórkostlega niður í 0,75 prósent, átti sér stað tilfærsla til bankanna að nýju, og nú í óverðtryggð lán. Ástæðan var einföld: þeir buðu betur og lífeyrissjóðirnir voru farnir að reka sig upp í þakið á því sem þeir gátu lánað sjóðsfélögum sínum til íbúðarkaupa.
Nú bjóða bankarnir hins vegar ekki lengur lægstu óverðtryggðu vextina, heldur lífeyrissjóðurinn Gildi. Sem stendur eru óverðtryggðir vextir hans á 75 prósent láni um 3,55 prósent. Til samanburðar býður Landsbankinn lægstu óverðtryggðu vextina af bönkunum í dag, 3,65 prósent upp að 70 prósent veðhlutfalli og 4,65 prósent upp að 85 prósent veðhlutfalli. Vegnir meðalvextir fyrir 75 prósent lán nema því 3,72 prósent, sem er hærra en hjá Gildi.
Hins vegar bjóða bankarnir áfram hærri lán og hærra veðhlutfall og lífeyrissjóðirnir bjóða áfram hagstæðustu kjörin á verðtryggðum lánum.
Flóttinn yfir í óverðtryggð lán gæti leitt til minni vaxtahækkana
Aðra skýra vísbendingu um aukna neytendameðvitund heimila landsins þegar kemur að íbúðalánum má sjá í tilfærslu þeirra milli fyrst verðtryggðra lána yfir í óverðtryggð, þegar þau urðu ódýrari, og síðan með tilfærslu úr breytilegum í fasta vexti, þegar vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands hófst seint í vor.
Hlutfall óverðtryggðra lána af heildaríbúðalánum til heimilanna var 27,5 prósent í janúar í fyrra. Í ágúst síðastliðnum var það hlutfall hins vegar komið upp í 50,2 prósent. Í skýrslu HMS er bent á að eftir því sem hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána eykst sé viðbúið að miðlun peningastefnu Seðlabankans verði virkari. „Breytingar á stýrivöxtum munu hafa meiri áhrif á hagkerfið í heild þegar stærra hlutfall af heildaríbúðalánum til heimilanna eru óverðtryggð þar sem óverðtryggðir vextir eru næmari fyrir stýrivaxtabreytingum. Þessi þróun getur leitt til þess að Seðlabankinn þurfi ekki að hækka vexti eins mikið til að slá á eftirspurn og ef hlutfall óverðtryggðra lána væri lægra.“
Sóknin í fastvaxtalánin eftir að vextir tóku að hækka er líka nokkuð skýr í tölunum sem HMS birtir í skýrslunni sinni. Þar kemur fram að í ágúst hafi 61 prósent af nýjum óverðtryggðum útlánum innlánsstofnana til heimilanna verið fastvaxtalán á meðan 39 prósent voru á breytilegum vöxtum. „Aukning á hlutfalli fastvaxtalána bendir til þess að heimilin búist við töluverðum vaxtahækkunum þar sem bilið á milli fastra vaxta og breytilegra er breitt.“