Ný útlán til fyrirtækja og heimila landsins, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, bankakerfisins voru 68,1 milljarðar króna í maímánuði. Það eru mestu nettó útlán banka hérlendis innan mánaðar sem birst hafa í hagtölum Seðlabanka Íslands, sem ná aftur til byrjun árs 2013, en nýjar hagtölur fyrir bankakerfið voru birtar í morgun.
Miðað við stöðu mála í hagkerfinu á árunum 2009 og til loka árs 2012, þegar nýju bankarnir sem voru endurreistir á grunni þeirra sem féllu haustið 2008 voru að hefja starfsemi sína, er útilokað að þeir hafi lánað meira innan mánaðar á því tímabili.
Þessi þróun er að eiga sér stað á sama tíma og kostnaður við lántökur hefur stóraukist, samhliða því að stýrivextir hafa hækkað úr 0,75 í 4,75 prósentustig á rúmu ári. Á móti kemur að verðbólga er í hæstu hæðum, alls 7,6 prósent, og raunvextir á óverðtryggðum lánum því í flestum tilvikum neikvæðir.
Mest eru útlánin að aukast til atvinnulífsins. Í maímánuði lánuðu kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki samtals 35,4 milljarða króna til þess að frádregnum upp- og umframgreiðslum. Það eru næstmestu ný útlán til atvinnufyrirtækja sem skrásett hafa verið í hagtölum Seðlabankans innan mánaðar, en tölurnar ná aftur til byrjun árs 2013. Eina skiptið sem bankarnir þrír dældu út fleiri krónum í ný útlán var í ágúst 2018, þegar þeir lánuðu 37,5 milljarða króna til fyrirtækja.
Frá áramótum hafa atvinnufyrirtæki fengið 115,9 milljarða króna í ný útlán. Til samanburðar lánuðu bankarnir þrír rúmlega 107 milljarða króna til fyrirtækja í nýjum útlánum frá maí 2019 og út síðasta ár, eða á tveimur og hálfu ári.
Heimilin í landinu fengu 21,5 milljarð króna að láni frá bönkum í síðasta mánuði. ÞAr af voru 20,2 milljarðar króna teknir í óverðtryggðum lánum en einungis 734 milljónir króna nettó í verðtryggðum lánum. Þetta eru þó mestu útlán innan mánaðar til heimila landsins það sem af er ári.
Metmánuður hjá fyrirtækjum í byggingarstarfsemi
Mesta útlánaaukningin í maí var til félaga sem sinna þjónustu, sem fengu 25,4 milljarða króna í ný útlán. Þar af fóru þó 16,6 milljarðar króna til fasteignafélaga sem kaupa og reka fasteignir.
Til að setja þá tölu í samhengi þá lánuðu kerfislega mikilvægu bankarnir þrír samtals 16,5 milljarða króna til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð allt árið 2019, síðasta heila árið fyrir kórónuveirufaraldur.
Á árunum 2020 og 2021 voru útlánin til geirans, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, hins vegar neikvæð um 29,7 milljarða króna. Því er um mikinn viðsnúning að ræða.
Sá viðsnúningur er nauðsynlegur í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir á húsnæðismarkaði í dag vegna framboðsskorts og gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Í gær voru til að mynda birtar nýjar tölur frá Þjóðskrá sem sýndu að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki hækkað meira á tólf mánaða tímabili síðan árið 2006. Árshækkunin, samkvæmt nýbirtri vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð, nemur nú 24 prósentustigum.
Í skýrslu sem starfshópur stjórnvalda um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti á opnum kynningarfundi í síðasta mánuði kom fram að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun. Til viðbótar þarf að mæta uppsafnaðri þörf sem er metin á um 4.500 íbúðir. Bráðabirgðamat hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að það þurfti að byggja 3.500 til 4.000 íbúðir á ári næstu fimm til tíu árin. Hún áætlar að 2.783 nýjar íbúðir komi á markaðinn á árinu 2022 og 3.098 íbúðir á árinu 2023. Í skýrslunni segir: „Raungerist þær áætlanir er ljóst að ekki verður byggt í takt við þörf og líkur til þess að uppsöfnuð íbúðaþörf muni aukast sem leitt getur af sér neikvæða þróun og áframhaldandi óstöðugleika á húsnæðismarkaði.“