Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun og svaraði fyrirspurn þingmanna um Borgunarmálið svokallaða, það er sölu Landsbankans á 31,2 prósent hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun.
Samkvæmt heimildum Kjarnans kom fátt nýtt fram í máli Steinþórs og varði hann þá ákvörðun bankans að selja hlutinn ekki í opnu söluferli líkt og hann hefur gert áður. Vísaði hann þar til þess að Landsbankinn hafi verið í óvirkur eigandi stórs hlutar í Borgun, vegna sáttar sem bankinn gerði við Samkeppniseftirlitið. Þá var hann spurður út í verðið á hlutnum, tæpa 2,2 milljarðar króna, en eins og Kjarninn greindi frá í gær þykir það í lægra lagi þegar horft er til algengra mælikvarða við mat á virði fyrirtækja.
Samkvæmt heimildum Kjarnans varði Steinþór verðmatið sem lá til grundvallar í viðskiptunum. Eftir ítarlega skoðun á virði hlutarins hefði þetta verið niðurstaðan, og samanburður á virði þessa hlutar við virði annarra fyrirtækja væri alltaf matskenndur og að því leyti ómarktækur.
Eins og Kjarninn hefur greint frá þá eru ekki öll kurl komin til grafar enn hvað þessi mál varðar. Samkeppniseftirlitið er enn að rannsaka meint brot bankanna á samkeppnislögum í gegnum greiðslukortafyrirtækin, og svaraði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, því til að hann gæti ekki tjáð sig um rannsóknina á þessum tímapunkti, þegar Kjarninn leitaði viðbragða hjá honum. Páll Gunnar hefur annars staðfest að Samkeppniseftirlitið hafi þrýst á um breytingar á eignarhaldi greiðslukortafyrirtækjanna, án þess þó að það hafi sett upp kröfur um hvernig yrði staðið að sölu á hlutum í fyrirtækjunum.