Bankasýsla ríkisins segir að það megi ætla 34 þeirra 207 fjárfesta sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði þann 22. mars hafi minnkað eignarhlut sinn í bankanum. Þessi hópur hafi saman losað um 1,1 prósentustig af heildarhlutafé Íslandsbanka og eigi enn um 4,1 prósent.
Þá birtast 60 fjárfestar ekki á hluthafaskrá og Bankasýslan segir það geta skýrst af fernu: viðkomandi er búinn að selja hlutinn sinn, er með hann í vörslu á safnreikningi, hefur fjármagnað kaupin í gegnum framvirka samninga við banka eða annað fjármálafyrirtæki eða að viðkomandi er eignastýringaraðili. Þessi hópur keypti alls fimm prósent hlut í Íslandsbanka í útboðinu í síðasta mánuði.
Í tilkynningu Bankasýslunnar, sem birtist í gær, segir að 25 fjárfestar, sem eru að mestu stórir stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði, hafi bætt við eignarhlut sinn eftir útboðið en 87 séu með óbreyttan eignarhlut og eigi áfram 10,1 prósent af öllu hlutafé bankans.
Tilkynningin birtist í kjölfar þess að Kjarninn greindi frá því að samanburðarlisti sem hann lét vinna fyrir sig úr gögnum yfir hluthafa Íslandsbanka hafi sýnt að 132 væru ekki skráðir fyrir þeim hlut sem þeir fengu úthlutað og að heimildir væru fyrir því að margir þeirra hefðu selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Í öðrum tilvikum hafi hluturinn þó verið fluttur á vörslureikninga í eignarstýtingu viðkomandi eða verið keyptur í gegnum framvirka samninga.
Ómögulegt er að sjá af hluthafalistanum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu en Bankasýslan bendir á að sá hlutur sem skráður er á fjármálastofnanir hafi vaxið um 3,8 prósentustig frá því fyrir útboð.
Erlendir sjóðir ekki lengur á listanum
Í umfjöllun Kjarnans kom meðal annars fram að þeir erlendur sjóðir sem söluráðgjafar Bankasýslu ríkisins buðu að taka þátt í lokaða útboðinu væru flestir búnir að selja allan þann hlut sem þeir fengu úthlutað. Um er að ræða sjóði sem tóku líka þátt í almenna útboðinu í fyrrasumar og seldu sig þá strax niður í kjölfarið. Þeir voru því að taka snúning númer tvö á hlutabréfaeign í Íslandsbanka þar sem söluaðilinn var íslenska ríkið. Eftir almenna útboðið seldur sex þeirra erlendu sjóða sem keyptu í bankanum bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skráningu með umtalsverðum hagnaði, en söluandvirðið var um fjórir milljarðar króna. Á meðal þessara sex voru sjóðir Silver Point Capital, Fiera Capital, Lansdowne Partners og Key Square Partners.
Samkvæmt hluthafalista Íslandsbanka þann 11. apríl hafa Silver Point, Fiera Capital og KeySquare Partners þegar selt allan þann hlut sem þeim var úthlutað í lokaða útboðinu í mars.
Auk þess var sjóður í stýringu bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins RWC Asset Management valinn sem einn hornsteinsfjárfestanna í Íslandsbanka í aðdraganda almenna útboðsins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 prósent hlut á 2,4 milljarða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síðustu áramót og leyst um leið út umtalsverðan hagnað. Sjóður í stýringu RWC Asset Management fékk að kaupa hluti fyrir tæplega tvo milljarða króna í útboðinu í mars. Hann hafi þegar selt rúmlega fjórðung þeirra bréfa og leyst út hagnað.
Litlir fjárfestar ekki lengur skráðir fyrir hlut
Í umfjöllun Kjarnans kom líka fram að listinn benti til þess að margir litlir fjárfestar væru búnir að selja sinn hlut, en alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 milljónir króna í útboðinu.
Þá var greint frá því að nokkrir stórir aðilar væru ekki skráðir fyrir þeim hlut sem þeim var úthlutað á hluthafalistanum en aðrir fjölmiðlar, sérstaklega Innherji á Vísi, hafa opinberað að hluti þeirra hafi keypt í gegnum framvirka samninga og því væri hluturinn skráður á þann banka sem gerði samningin við þau, ekki þau sjálf.
Í útboðinu 22. mars seldi íslenska ríkið 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka á 52,65 milljarða króna, sem var 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði bankans á þeim tíma. Söluferlið hefur verið harðlega gagnrýnt. Ríkisendurskoðun vinnur nú stjórnsýsluúttekt á því og Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands rannsakar ákveðna þætti þess sem tengjast útboði og starfsháttum söluráðgjafa í sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins.
Bankasýslan hefur varið framkvæmdina og sagt hana hafa gengið vel. Forsvarsmenn hennar, forstjórinn Jón Gunnar Jónsson og stjórnarformaðurinn Lárus Blöndal, hafa hafnað allri gagnrýni sem settu hefur verið fram á þeirra þátt í útboðinu.