Mynd: Íslandsbanki

Stór hluti þeirra sem fengu að kaupa í Íslandsbanka eru ekki lengur á meðal hluthafa

Samanburður á hluthafalista Íslandsbanka fyrir lokaða útboðið í mars og listanum eins og hann leit út í gær sýnir að margir þeirra sem fengu að taka þátt í útboðinu hafa selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Hópurinn hefur hagnast um 1,6 til 2,1 milljarð króna á því að eiga bréfin í nokkra daga. Lífeyrissjóðir hafa verið að kaupa bréf af miklum móð síðustu vikur á hærra verði en stóð til boða í útboðinu.

Alls eru 132 þeirra 207 fjár­festa sem fengu úthlutað hlutum í Íslands­banka í nýlegu lok­uðu útboði ekki skráðir fyrir sama hlut og þau fengu úthlut­að. Margir þeirra hafa selt sig niður að ein­hverju eða öllu leyti. Sam­an­lagt keyptu þessir aðilar fyrir um 18,7 millj­arða króna í útboð­inu þann 22. mars síð­ast­lið­inn, en útboðs­gengið var 117 krónur á hlut sem var 4,1 pró­sent lægra en mark­aðs­gengi þess dags. 

Frá því að greitt var fyrir bréfin 28. mars hefur gengi bréfa í Íslands­banka verið lægst 126,8 krónur á hlut og hæst 130,2 krónur á hlut. Miðað við það hefur þessi 132 aðila hópur hagn­ast um 1,6 til 2,1 millj­arða króna á því að taka þátt í hinu lok­aða útboði og selja bréfin aftur skömmu síð­ar. 

Þetta má sjá með því að bera saman lista yfir kaup­endur að hlut í Íslands­banka, sem birtur var síð­ast­lið­inn mið­viku­dag, og hlut­haf­alista bank­ans eins og hann var í lok dags í gær, 11. apríl 2022. 

Lang­flestir þeirra 132 félaga, sjóða og ein­stak­linga sem tóku þátt í útboð­inu en hafa selt hluti síðan þá eru ekki lengur skráðir fyrir neinum hlut í Íslands­banka.

Mikil velta eftir útboð

Heim­ild­ar­menn Kjarn­ans innan banka­kerf­is­ins segja að í flestum til­vikum séu við­kom­andi ein­fald­lega búnir að selja hlut­inn og leysa út hagn­að­inn af því að hafa fengið að taka þátt í útboð­inu með afslætti. Í ein­hverjum til­vikum hafi verið fram­virkir samn­ingar við þá og við­kom­andi fengið lán fyrir kaup­unum sem hafi svo í sumum til­vikum verið gert upp strax á fyrstu dögum eftir að hægt var að selja að nýju. Það sem eftir sat lenti svo í vasa við­kom­andi fag­fjár­festis sem hreinn hagn­að­ur. 

Í öðrum til­vikum hafi hlut­ur­inn þó verið fluttur á vörslu­reikn­inga í eign­ar­stýt­ingu við­kom­andi. Ómögu­legt er að sjá af hlut­haf­alist­anum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu. Velta með bréf í Íslands­banka, þar sem sem þau eru keypt og seld, dag­anna eftir að útboð­inu lauk var marg­föld það sem hún var að með­al­tali á dag frá ára­mótum og fram að útboði. frá 23. mars og til 11. apríl höfðu um 152,6 millj­ónir hluta skipt um eig­end­ur. Það er um þriðj­ungur þess sem selt var í útboð­in­u. 

Upp­fært 15. apr­íl. Banka­sýsla rík­is­ins birti yfir­lit yfir það hvernig hún ætlar að þróun á eign­ar­haldi þeirra sem keyptu hlut í Íslands­banka 22. mars hafi verið frá útboði. Hægt er að lesa umfjöllun um það yfir­lit hér að neð­an.

Í kynn­ingu sem Banka­­­sýsl­a rík­is­ins hélt fyrir ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál 1. apríl síð­ast­lið­inn var há hlut­­­deild einka­fjár­­­­­festa í útboð­inu rök­studd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjár­­­­­festa í frumút­­­­­boð­inu á hlutum í Íslands­­­­­banka í fyrra­­sum­­­ar. 

Erlendu sjóð­irnir farnir

Mesta athygli vekur að þeir erlendur sjóðir sem sölu­ráð­gjafar Banka­sýslu rík­is­ins buðu að taka þátt í lok­aða útboð­inu eru flestir búnir að selja allan þann hlut sem þeir fengu úthlut­að. Um er að ræða sjóði sem tóku líka þátt í almenna útboð­inu í fyrra­sumar og seldu sig þá strax niður í kjöl­far­ið. Þeir voru því að taka snún­ing númer tvö á hluta­bréfa­eign í Íslands­banka þar sem sölu­að­il­inn var íslenska rík­ið. Eftir almenna útboðið seldur sex þeirra erlendu sjóða sem keyptu í bank­­anum bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skrán­ingu með umtals­verðum hagn­aði, en sölu­and­virðið var um fjórir millj­­arðar króna. Á meðal þess­­ara sex voru sjóðir Sil­ver Point Capital, Fiera Capital, Lans­downe Partners og Key Squ­are Partners.

Allir fjórir sjóð­irnir voru aftur með í lok­aða útboð­inu. Sil­ver Point keypti fyrir rúm­­lega 1,3 millj­­arða króna, Lands­down Partners fyrir næstum 556 millj­­ónir króna, Fiera Capi­tal fyrir 468 millj­­ónir króna og KeySqu­are Partners fyrir 409,5 millj­­ónir króna. Sam­tals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúm­­lega 2,7 millj­­arða króna í lok­aða útboð­inu og fengu í stað­inn 5,2 pró­­sent hlut í Íslands­­­banka.

Sam­kvæmt hlut­haf­alista Íslands­banka í gær hafa Sil­ver Point, Fiera Capi­tal og KeySqu­are Partners þegar selt allan þann hlut sem þeim var úthlutað í lok­aða útboð­inu í mar­s. 

Auk þess var sjóður í stýr­ingu banda­ríska sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins RWC Asset Mana­gement val­inn sem einn horn­­steins­fjár­­­fest­anna í Íslands­­­banka í aðdrag­anda almenna útboðs­ins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 pró­­sent hlut á 2,4 millj­­arða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síð­­­ustu ára­­mót og leyst um leið út umtals­verðan hagn­að. Sjóður í stýr­ingu RWC Asset Mana­gement fékk að kaupa hluti fyrir tæp­­lega tvo millj­­arða króna í útboð­inu í mars. Hann hefur þegar selt rúm­lega fjórð­ung þeirra bréfa og leyst út hagn­að. 

Flestir „litlu“ fjár­fest­arnir búnir að selja

Á sam­an­burð­ar­list­anum sem Kjarn­inn hefur undir höndum kemur skýrt fram að flestir „litlu“ fjár­fest­arn­ir, sem keyptu fyrir smærri upp­hæð­ir, eru búnir að selja sinn hlut, en alls fengu 59 aðilar að kaupa fyrir undir 30 millj­ónir króna og 79 fyrir minna en 50 millj­ónir króna. Gagn­rýnt hefur verið að fjár­festar sem kaupa fyrir svo lágar upp­hæðir fái afslátt í gegnum lokað útboð. Engin ástæða er fyrir því að lokka þá sér­stak­lega inn í eig­enda­hóp­inn í gegnum slíka sölu­að­ferð heldur geti þeir keypt á eft­ir­mark­aði eins og aðr­ir.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir árslok 2023. Áframhaldandi sala hefur nú verið sett á ís á meðan að síðasta sala er rannsökuð.
Mynd: Bára Huld Beck

Á meðal stærri fjár­festa, sem keyptu fyrir nokkur hund­ruð millj­ónir króna, sem eru ekki lengur skráðir fyrir hlut í Íslands­banka eru Eign­ar­halds­fé­lagið Steinn, í eigu Þor­steins Más Bald­vins­sonar og fyrr­ver­andi eig­in­konu hans, tvö félög í eigu bræðr­anna Ágústs og Lýðs Guð­munds­sona, félag í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu, félag í eigu Pálma Har­alds­son­ar, félög Þórðar Más Jóhann­es­sonar og fjár­fest­inga­fé­lagið Stoð­ir. Í frétt sem Inn­herji birti mið­viku­dag­inn 13. apríl neita Þor­steinn Már og Guð­björg því að hafa selt hluti og segja að kaup þeirra hafi verið í gegnum fram­virka samn­inga. Sömu sögu er að segja um Þórð Má Jóhann­es­son og Ágúst og Lýð Guð­munds­son.

Umdeildasta nafnið sem birt­ist á kaup­enda­list­anum var félagið Haf­silf­ur, í eigu Bene­dikts Sveins­son­ar. Ástæða þess er að Bene­dikt er faðir Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem ber ábyrgð á sölu Íslands­banka sam­kvæmt lög­um. Félag Bene­dikts heldur enn á þeim hlut sem það keypti fyrir tæp­lega 55 millj­ónir króna. Virði hlut­ar­ins hefur hækkað um fimm millj­ónir króna frá því að útboðið átti sér stað.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir að kaupa mikið magn á hærra verði

Veru­leg umfram­eft­ir­spurn var eftir bréfum í útboð­inu. Banka­sýslan hefur þegar opin­berað að fjár­festar hafi skráð sig fyrir hlutum fyrir sam­tals meira en 100 millj­arða króna, en selt var fyrir 52,65 millj­arða króna. Fram hefur komið að líf­eyr­is­sjóð­irnir fengu að kaupa mun minna en þeir vildu í útboð­in­u. 

Á sam­an­burð­ar­list­anum má sjá að það eru aðal­lega líf­eyr­is­sjóðir sem hafa verið að bæta við sig hlutum í Íslands­banka á eft­ir­mark­aði eftir að útboðið var gert upp. Þannig hefur Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins keypt 29 millj­ónir hluta frá þeim tíma, sem á virði dags­ins í dag kosta um 3,6 millj­arða króna. Lífs­verk líf­eyr­is­sjóður hefur keypt fyrir um 1,7 millj­arða króna, Brú líf­eyr­is­sjóður fyrir tæp­lega 600 millj­ónir króna og Gildi fyrir tæp­lega 400 millj­ónir króna. 

Aðrir stofn­ana­fjár­festar eins og trygg­inga­fé­lögin Sjóvá og VÍS, ásamt íslenskum sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækj­um, hafa líka bætt við sig hlutum á verði sem er tölu­vert umfram það sem stóð til boða í útboð­inu. Þegar við er bætt þeim hlut sem sjóð­ur­inn Capi­tal Group, einn stærsti eig­andi Íslands­banka, hefur bætt við sig frá því að útboðið fór fram kemur í ljós að níu stofn­ana­fjár­festar hafa keypt rúm­lega 40 pró­sent þeirra hluta sem seldir hafa verið eftir útboð. 

Því hafa líf­eyr­is­sjóðir og aðrir stofn­ana­fjár­fest­ar, sem líta á eign í Íslands­banka sem lang­tíma­eign, síð­ustu vikur keypt stóran hluta þeirra bréfa sem minni fjár­festar hafa selt með skyndigróða á hærra verði en bauðst í útboð­in­u. 

Frétta­skýr­ingin var upp­færð og leið­rétt 13. apríl með upp­lýs­ingum um að félög Þor­steins Más Bald­vins­son­ar, Guð­bjargar Matth­í­as­dótt­ur, Þórðar Más Jóhanns­sonar og Ágústar og Lýðs Guð­munds­sona hefðu ekki selt hlut sinn í Íslands­banka. Sam­hliða var orða­lagi í fyrstu máls­grein breytt lít­il­lega. Hún var aftur upp­færð og leið­rétt 15. apríl eftir að upp­lýs­ingar komu fram um að starfs­menn og eig­endur sölu­ráð­gjafa sem ráðnir voru til að sinna útboð­inu væru enn skráðir fyrir sínum hlut­um, og upp­færð í þá veru.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar