Birgir Þór Harðarson

Vanmáttug og reið – Kærði vændiskaup en upplifði sig sem fjórða flokks manneskju

Kona sem reyndi að kæra vændiskaup í lok mars 2020 er ósátt við vinnubrögð lögreglunnar og segist ekki mæla með því að fólk kæri kynferðisbrot til lögreglu. Hún vonast þó til að niðurstaða nefndar um eftirlit með lögreglu um að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi muni hafa þær afleiðingar að lögreglan taki á þessum málum og komi betur fram við kærendur.

Kona, sem ekki vill láta nafn síns get­ið, missti heils­una í kjöl­far banka­hruns­ins árið 2008 og sá enga aðra úrkosti en að selja vændi til þess að fram­fleyta sér og barni sínu. Hún lýsir í sam­tali við Kjarn­ann hvaða afleið­ingar fátækt hefur á fólk og sömu­leiðis vændi. „Þetta er það svaka­leg­asta sem ég hef lent í og ég óska engum að vera á þeim stað að íhuga þetta.“

Kaup á vændi eru ólög­leg hér á landi en ekki sala á vændi. Lögum þess efnis var breytt árið 2009 þar sem farið var eftir svo­kall­aðri sænsku leið en sam­kvæmt lögum skal hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða ann­ars konar end­ur­gjaldi fyrir vændi sæta sektum eða fang­elsi allt að einu ári.

Á vef Stíga­móta kemur fram að kaup á vændi séu talin gróf vald­beit­ing, þar sem valda­staða þess sem kaupir vændi eða hefur milli­göngu um það sé í stöðu hins sterka.

„Ein­stak­lingur sem kaupir vændi er í raun að nýta sér neyð þess sem sel­ur. Afleið­ingar vændis eru mjög svip­aðar og hjá öðrum brota­þolum kyn­ferð­is­of­beld­is. Brotin sjálfs­mynd, sjálfs­fyr­ir­litn­ing, sjálfs­á­sak­an­ir, þung­lyndi, skömm og sjálf­vígs­hug­leið­ingar en til­raunir til sjálfs­víga eru algeng­ari hjá brota­þolum vændis en ann­ars kyn­ferð­is­of­beld­is,“ segir á vef Stíga­móta.

Konan greinir frá því að eftir mikla íhugun hafi hún lagt fram skrif­lega kæru til lög­reglu í byrjun COVID-far­ald­urs á hendur manni sem keypti af henni vændi árið 2015. Brotið var fyrnt en hún segir að henni hafi verið ráð­lagt að leggja fram kæru til þess að geta talað um meint brot ef henni hugn­að­ist svo.

Mað­ur­inn hefur verið virkur í starfi stjórn­mála­flokks og er stundum áber­andi í sam­fé­lag­inu og taldi konan mik­il­vægt að fólk vissi af slíkum brotum í ljósi starfa hans. Vegna mis­vísandi upp­lýs­inga frá lög­reglu var kæran þó aldrei tekin til með­ferðar og afgreidd. Þegar konan fékk veður af þessu þá sendi hún erindi til nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu þar sem hún gerði athuga­semdir við starfs­að­ferðir lög­reglu og mis­vísandi upp­lýs­inga­gjöf við mót­töku kærunn­ar.

Nefndin komst að þeirri nið­ur­stöðu að vís­bend­ingar væru um að emb­ætti lög­reglu­stjór­ans á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefði ekki sinnt leið­bein­ing­ar­skyldu sinni sem skyldi.

Taldi að kæran yrði tekin fyrir – en svo var ekki

Atburða­rásin var með þeim hætti að konan sendi kæru með tölvu­pósti í lok mars árið 2020 á til­tek­inn lög­reglu­full­trúa og óskaði eftir því að kæra hennar yrði tekin til skoð­un­ar. Í tölvu­póst­inum spurði konan sér­stak­lega hvort erindið væri full­nægj­andi til að ná mark­miði hennar um kæru en fékk ekki svör við því. Vegna COVID-far­ald­urs og sam­komu­tak­mark­ana – og vegna þess að ekki var leið­beint um annað á þessum tíma – taldi konan að erindi hennar yrði tekið fyrir sem kæra en svo var ekki.

Í kærunni, sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, kemur fram að á haust­mán­uðum árið 2015 hafi mað­ur­inn sem um ræðir greitt kon­unni fyrir vændi.

Þá segir að sá tími sem atvikið átti sér stað hafi verið kon­unni erf­ið­ur, meðal ann­ars vegna mik­illa fjár­hags­erf­ið­leika. Í neyð sinni hefði hún ákveðið að selja lík­ama sinn – sér til lífs­við­ur­vær­is.

Mað­ur­inn reyndi ítrekað að hafa sam­band við hana

Fram kemur að mað­ur­inn hafi nálg­ast hana í gegnum net­fang og ítrekað haft sam­band. Að end­ingu hafi hún látið undan og sam­þykkt að selja honum lík­ama sinn gegn greiðslu. Eftir vændis­kaup­in, þar sem mað­ur­inn hafi talað verðið nið­ur, hafi hann ítrekað haft sam­band við kon­una en hún hins vegar ekki svarað skila­boðum hans. Þau hitt­ust ekki aft­ur, að sögn kon­unn­ar.

Eins og áður segir var kæran aldrei tekin fyrir af hálfu lög­regl­unnar og lét lög­reglan kon­una ekki vita um fram­vindu mála. Hún kann­aði málið í byrjun júní 2020 og spurði lög­regl­una hvar það stæði og fékk hún ein­ungis þau svör að málið væri fyrnt.

Það er yfirhöfuð erfitt að kæra, hvað þá að lenda í svona bið.
Nefnd um eftirlit með lögreglu telur að vísbendingar séu uppi að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni sem skyldi í ljósi þess að konan „taldi sig hafa verið að leggja fram kæru svo sem ásetningur hennar stóð til“.
Lögreglan

Síðar í mál­inu hefur lög­reglan borið því við að til þess að leggja fram form­lega kæru þurfi kær­andi að panta tíma í kæru­mót­töku á lög­reglu­stöð og mæta í eigin per­sónu og leggja fram kæru. Konan fékk þessar upp­lýs­ingar þó ekki fyrr en eftir sér­staka kvörtun.

Sendi erindi til nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu

Í júlí 2021, rúmu ári seinna, sendi hún erindi til nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu þar sem hún gerði athuga­semdir við starfs­að­ferðir lög­reglu og mis­vísandi upp­lýs­inga­gjöf við mót­töku kæru vegna meints kyn­ferð­is­brots gegn henni árið 2015.

Nefndin tók málið fyrir í októ­ber árið 2021. Í nið­ur­stöð­unni kemur fram að vís­bend­ingar séu um að emb­ætti lög­reglu­stjór­ans á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hafi ekki sinnt leið­bein­ing­ar­skyldu sinni sem skyldi.

„Nefnd um eft­ir­lit með lög­reglu fór ítar­lega yfir erindi XXX og þau gögn sem henni bár­ust frá Lög­reglu­stjór­anum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Með hlið­sjón af því hvernig máls­at­vikum var lýst í kvörtun­inni og þeim gögnum sem nefndin hefur undir hönd­um, telur nefnd um eft­ir­lit með lög­reglu að vís­bend­ingar séu uppi að emb­ættið hafi ekki sinnt leið­bein­ing­ar­skyldu sinni sem skyldi í ljósi þess að XXX taldi sig hafa verið að leggja fram kæru svo sem ásetn­ingur hennar stóð til. XXX fékk aðeins svar frá emb­ætt­inu að málið væri fyrnt en ekki að skjal það sem hún sendi hafi ekki full­nægt skil­yrðum að telj­ast kæra né að ekki stæði til að skrá málið í bókum lög­reglu né til­kynna aðila máls um fram­komna „kæru“,“ segir í nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um.

Taldi nefndin því rétt að erindið yrði tekið til þókn­an­legrar með­ferðar hjá lög­reglu­stjór­anum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Biðin erfið

Eftir nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar gekk málið hratt fyrir sig. Konan var boðuð í skýrslu­töku rúmum mán­uði eftir að nið­ur­staðan lá fyr­ir.

Konan segir í sam­tali við Kjarn­ann að ástæðan fyrir því að hún hafi kært meint brot sé sú að hún vildi geta talað um mann­inn án þess að eiga á hættu að vera kærð fyrir meið­yrði. Mað­ur­inn hefur verið virkur í starfi stjórn­mála­flokks og fannst henni mik­il­vægt að kæran yrði færð til bók­ar.

Biðin hefur verið löng og segir konan að sú bið hafi verið erf­ið. „Það er yfir­höfuð erfitt að kæra, hvað þá að lenda í svona bið,“ segir hún.

Missti heils­una og var með lítið á milli hand­anna

Konan útskýrir ástæður þess að hún leidd­ist út í vændi á sínum tíma – en heilsu­leysi, fátækt og brotin sjálfs­mynd spil­uðu stóra rullu. Hún greinir frá því að hún hafi misst heils­una í banka­hrun­inu 2008 og í kjöl­farið hafi hún farið í end­ur­hæf­ingu. Biðin á þeim tíma hafi verið 3 til 12 mán­uðir en konan bendir á að nú sé biðin enn lengri.

„Á meðan þú ert að bíða eftir end­ur­hæf­ing­ar­úr­ræði þá er engin önnur inn­koma í boði nema félags­þjón­ustan ef þú átt ekki maka. Og þar er fjár­hags­að­stoðin naumt skor­in; þetta er neyð­ar­að­stoð og ekki hugsuð þannig að hún eigi að duga í marga mán­uði. Þetta er hugsað sem tíma­bundið úrræð­i,“ segir hún og bætir því við að kerfið sé því miður þannig að margir þurfi að reiða sig á þetta neyð­ar­úr­ræði í hálft ár, ár eða jafn­vel leng­ur.

Hún segir að lítið sé eftir þegar búið er að borga húsa­leigu en í hennar til­felli hafi hún átt með­lag og húsa­leigu­bætur eft­ir. Með­lagið hafi þó farið í aðra reikn­inga og hluti af húsa­leigu­bót­unum einnig. „Þá átti ég eftir ein­hverja tíu þús­und kalla til að lifa en þeir gátu verið fljótir að fara því á þessum tíma kost­aði tíu þús­und krónur að fylla á ísskáp­inn.“

Sér­stak­lega erfitt fyrir fólk með lítið bak­land

Konan er með barn á fram­færi sínu og bendir hún á að hún hafi þurft að kaupa skóla­mál­tíð­ir, aðgang að frí­stund og tóm­stundum – og fleira fyrir barn­ið.

„Það er ekk­ert sjálf­sagt að félags­þjón­ustan aðstoði með það og í mínu til­felli var það þannig að ég þurfti að lesa mér til um allan minn rétt, um allt sem mér var ekki sagt að fyrra bragði að ég gæti feng­ið.“

Hún segir að aðstæður sem þessar séu sér­stak­lega erf­iðar fyrir þau sem hafa lítið bak­land eða mæta skiln­ings­leysi fjöl­skyldu sinn­ar. Hún greinir frá því að hún hafi skamm­ast sín fyrir stöðu sína og að stundum hafi hún þurft að betla frá fjöl­skyldu sinni 500 krónur í lán ef ein­hver átti til dæmis afmæli. „Þetta var mjög nið­ur­lægj­and­i,“ segir hún.

Kerfið heldur fólki niðri í sára­fá­tækt

Konan er mjög gagn­rýnin á þau úrræði sem standa fátæku fólki til boða. „Kerfið er þannig byggt upp að ef ég vinn mér fyrir einni krónu þá er sú króna dregin af mér. Kerfið leyfir mér ekki að vinna þó ég myndi hafa pínu­litla orku til þess. Þannig heldur kerfið manni niðri í sára­fá­tækt og barn­anna þá í leið­inn­i.“

Hún seg­ist enga lausn hafa séð út úr þessum aðstæð­um. Hún var ekki að fara á aftur á vinnu­mark­að­inn í bráð og heilsan var ekki að lag­ast. Því hafi hún enga aðra leið séð út úr fjár­hags­vand­ræð­unum nema að selja vændi. „Ég sá enga aðra leið til að láta þessa hluti ganga upp.“

Ég gat ekki ímyndað mér að vændi myndi valda mér þeim skaða sem það gerði.
Konan segir að hún hafi verið mjög brotin, með lága eða enga sjálfsmynd og ekki með getuna til að setja mörk í samskiptum við hitt kynið.
Pexels

Þá hafi hún jafn­framt haft mikla áfalla­sögu að baki áður en hún varð óvinnu­fær. „Ég hafði meðal ann­ars orðið fyrir nauðgun sem ung­lingur og bjó við heim­il­is­of­beldi bæði sem barn og full­orð­in. Þannig var ég mjög brot­in, með lága eða enga sjálfs­mynd og ekki með get­una til að setja mörk í sam­skiptum við hitt kyn­ið.“

Fór þessa leið í stað­inn fyrir að svelta

Konan segir að hún hefði aftur á móti ekki getað ímyndað sér afleið­ing­arnar af því að stunda vændi. „Ég gat ekki ímyndað mér að vændi myndi valda mér þeim skaða sem það gerði. Þess vegna ákvað ég frekar að fara í vændi frekar en að selja til dæmis dóp,“ segir hún.

Fólk kann að hafa ákveðnar hug­myndir um „vænd­is­kon­una“ – hvernig henni líður og hvað hún gengur í gegn­um. Konan seg­ist vera af þeirri kyn­slóð sem ólst upp við kvik­mynd­ina Pretty Woman með Juliu Roberts og Ric­hard Gere í aðal­hlut­verk­um. Þar segir frá ríkum við­skipta­jöfri sem kaupir vænd­is­þjón­ustu frá ungri konu og fella þau hugi saman á end­an­um. Hann verður í raun hvíti prins­inn á hest­inum sem bjargar henni úr aðstæð­un­um.

Þessi heimur er fegraður gríð­ar­lega í kvik­mynd­inni, að mati kon­unn­ar, og þrátt fyrir að hún hafi gert sér grein fyrir því áður en hún fór að stunda vændi þá óraði hana ekki fyrir afleið­ing­unum á sínum tíma. „En ég var bara í mjög erf­iðum aðstæðum – og ég veit ekki einu sinni hvort hægt sé að kalla þetta val. En ég fór þessa leið í stað­inn fyrir að svelta,“ segir hún.

Var „stút­full“ af skömm

Konan var með hléum í sjö ár í vændi og þegar hún er spurð hvernig hún hafi tek­ist á við afleið­ingar þess að selja vændi segir hún að fyrst þegar hún los­aði sig úr þessum heimi hafi hún verið „stút­full af skömm“.

„Ég hélt að eng­inn myndi skilja mig og að eng­inn gæti sýnt mér sam­kennd. Og að allir myndu kenna mér um það að mér liði illa yfir því að hafa verið á þessum stað. Að hafa lent í þessu. Hins vegar leit­aði ég mér aðstoðar ein­hverjum árum síðar eftir að hafa bælt þetta niður í mjög langan tíma og liðið eins og ég væri fjórða flokks mann­eskja í þess­ari ver­öld. Mér hafði liðið ann­ars flokks sem fátæk óvinnu­fær móðir en nú var ég komin í fjórða flokk eftir að hafa verið í vænd­i,“ segir hún.

Hún ber Stíga­mótum vel sög­una og telur hún hrein­lega að sam­tökin hafi bjargað lífi sínu. Hún frétti af hóp sem var starf­ræktur reglu­lega þar sem konur í vændi hitt­ust undir hand­leiðslu sál­fræð­ings og fólks sem hefur verið á þessum stað. Hún hefur tvisvar farið í gegnum slíka með­ferð og án hennar seg­ist hún ekki vera viss um að vera á lífi í dag.

„Ég væri að minnsta kosti ekki að tala við þig!“ segir hún ákveð­in, Hún tekur fram að slík hópúr­ræði virki ekki endi­lega fyrir alla – en að það hafi virkað fyrir hana.

Mögu­legt að hætta sjálfs­á­sök­unum

„Þarna eru konur með þekk­ingu og reynslu af þessum heimi og ég er ekki viss um að það sé til betri staður á Íslandi til að fá skiln­ing­inn og sam­kennd­ina og aðstoð við að koma öllum þessum flóknu til­finn­ingum í orð. Því við kennum sjálfum okkur rosa­lega mikið um.“

Hún segir að hægt sé að kom­ast út úr skömminni og sjálfs­á­sök­unum með með­ferð. „Mér fannst hóp­með­ferðir sér­stak­lega hjálpa. Eins erfitt og það var að leyfa öðrum konum að sjá mig og leyfa öðrum að vita að ég hafi verið á þessum stað – ég var með svo mikla for­dóma fyrir sjálfri mér – að þá var það eig­in­lega meiri­hlut­inn af bat­anum og lækn­ing­ar­ferl­inu að geta speglað mig í öðrum konum sem líður alveg eins.“

Stór ákvörðun að kæra

Konan segir að það hafi verið gríð­ar­lega stór ákvörðun að leggja fram kæru á hendur vændis­kaup­and­an­um. Henni hafi verið ráð­lagt að kæra ef hún ætl­aði að tala um hann opin­ber­lega. Að hún yrði að kæra til að fá að tala um það sem gerð­ist þeirra á milli. „Mér finnst rosa­lega skilj­an­legt en samt erfitt að þurfa að fara í gegnum kæru­ferlið til þess að mega tala um það sem ég hef upp­lif­að. Sér­stak­lega út af því við­móti sem ég síðan fékk.“

Þegar hún er spurð hvernig sé að fara í gegnum slíkt ferli seg­ist hún hafa upp­lifað sig sem fjórða flokks ein­stak­ling. Það hafi jafn­vel hvarflað að henni að við­mótið til hennar og kærunnar hafi verið út af mála­flokkn­um.

„Svo koma líka þær hugs­anir upp hvort að það sé vegna manns­ins sem ég er að kæra. Og ég get ekki að því gert að þessar hugs­anir koma líka upp því þessi maður er vel tengd­ur.“

Harma að afgreiðsla máls­ins hafi ekki verið með full­nægj­andi hætti

Hún segir að kæru­ferlið hafi verið búið að vera og sé enn ofboðs­lega sárt. „Ég get stað­fest það sem aðrar konur hafa sagt í fjöl­miðlum að und­an­förnu að ég myndi ekki mæla með þessu við neinn en ég hins vegar vona að lög­reglan sé að taka á þessum málum þannig að þau sem á eftir okkur koma fái betra við­mót.“

Hún segir að það sé ein af ástæð­unum fyrir því að hún tali opin­ber­lega um málið – þetta sé ekki í lagi.

Nýj­ustu vend­ing­arnar í mál­inu eru þær að konan fékk bréf þann 28. mars síð­ast­lið­inn frá lög­fræð­ingi stjórn­sýslu­deildar lög­regl­unnar þar sem vísað er í ákvörðun nefndar um eft­ir­lit með lög­reglu. Gerðar voru athuga­semdir við starfs­að­ferðir lög­regl­unnar og mis­vísandi upp­lýs­inga­gjöf við mót­töku kærunnar árið 2020.

Í bréf­inu kemur fram að emb­ættið harmi að afgreiðsla máls­ins hafi ekki verið með full­nægj­andi hætti og beðist er vel­virð­ingar á því. „Kæran þín verður skráð og fer í form­legt ferli,“ segir í bréf­inu og að hún yrði látin vita þegar kæran væri tekin til með­ferð­ar. „Beðist er afsök­unar á því hversu seint erindi þessu er svarað en það helg­ast af önn­um,“ segir að lokum í bréf­inu.

Það er alltaf þessi hræðsla. Ef ég er í sama bæjarfélagi og viðkomandi býr þá er ég hrædd um að rekast á hann.
Konan segist hafa verið meðvituð um hætturnar sem eru til staðað þegar einstaklingur kaupir vændi en að henni hafi ekki dottið í hug að afleiðingarnar mánuðum og jafnvel mörgum árum eftir yrðu miklu meiri en á meðan hún var í vændi.
Úr safni

Konan segir að henni „líði alls kon­ar“ eftir allt þetta ferli. „Ef ég fæ til dæmis sím­tal úr óþekktu síma­núm­eri þá kemur alltaf sú hugs­un: „Gæti þetta verið mað­ur­inn sem ég er að kæra.“ Það er alltaf þessi hræðsla. Ef ég er í sama bæj­ar­fé­lagi og við­kom­andi býr þá er ég hrædd um að rekast á hann.

Mér finnst einnig gríð­ar­lega óþægi­legt að hafa þurft að bendla nafnið mitt ein­hvers staðar í ein­hverju tölvu­kerfi við þennan heim og því tók það mig eitt ár fyrir rest að ákveða að leggja fram kæru. Kvíða­hnút­ur­inn í mag­anum yfir því að ein­hverju sé lekið er gríð­ar­leg­ur,“ segir hún.

Veit ekki hvort hún muni nokkurn tím­ann kom­ast yfir þetta

Konan seg­ist þó eiga fleiri betri daga en slæma – og sé það mikið Stíga­mótum að þakka. „Ég er ekki viss um að ég væri á þessum stað nema vegna Stíga­móta og alls þess fólks sem ég hef kynnst eftir að hafa leitað þang­að.

Áfallastreitan en ennþá til staðar og hvort ég mun nokkurn tím­ann losna við minn­ingar og trig­gera úr vænd­is­heim­inum veit ég ekki. Það eru orð, hljóð, staðir og útlit og bílar og svo margt sem gerir það að verkum að minn­ingar poppa upp.“

Konan fékk nýlega stað­fest­ingu á því að hún væri með áfallastreiturösk­un. „Þetta tíma­bil í mínu lífi er mjög stór valdur að því að ég fæ áfallastreituköst oft í mán­uði, mörgum árum síð­ar,“ segir hún.

Varð­andi við­mótið hjá lög­regl­unni þá segir hún að henni finn­ist hún van­máttug eftir allan þennan tíma og reið. Lífið sé ein­hvern veg­inn í bið­stöðu. Hún von­ist þó til að þessum hluta í lífi hennar fari brátt að ljúka en á meðan ferlið er enn í gangi þá hægi það á eða stöðvi jafn­vel bata. „Ég hef í raun farið um allan nei­kvæða til­finn­inga­skal­ann nema sorg,“ segir hún.

Óskar engum að vera á þeim stað að íhuga að stunda vændi

Kon­unni er umhugað að tala til þeirra sem íhuga þann val­kost að stunda vændi. „Ég hvet þá sem íhuga að fara þessa leið að skoða þetta vel. Kynna sér afleið­ingar vænd­is. Ég hafði vit á því að fylgj­ast með fréttum og vissi hvernig lög­reglan hag­aði sér. Svo vissi ég af dómi yfir manni sem hafði nauðgað konu sem hann hafði ætlað að kaupa vændi af. Ég var sem sagt með­vituð um hætt­urnar á staðnum en mér datt ekki í hug að afleið­ing­arnar mán­uðum og jafn­vel mörgum árum eftir yrðu miklu meiri en á meðan ég var í þessu.“

Hún bendir á að afleið­ing­arnar séu fjöl­þætt­ar. „Þetta kemur út í lík­am­legum afleið­ing­um, til dæmis verkj­um. Þetta er svo rosa­lega flókið og alls konar og ég get ekki einu sinni komið þessu almenni­lega í orð enn þann dag í dag. Þetta er það svaka­leg­asta sem ég hef lent í og ég óska engum að vera á þeim stað að íhuga þetta,“ segir hún að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal