Bann við vinstri beygju af Reykjanesbraut og inn á Bústaðaveg er á meðal þess sem Vegagerðin hefur verið með til skoðunar varðandi útfærslu gatnamóta þar, en sú lausn að breyttum gatnamótum hefur ekki orðið ofan á.
Vegagerðin hyggst fara með tillögur að skipulagi vegna gatnamótanna fyrir skipulagsráð Reykjavíkurborgar í haust, en svæðið í heild verður skipulagt með framtíðarlegu Borgarlínu í huga.
Bryndís Friðriksdóttir samgönguverkfræðingur og svæðisstjóri Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu segir aðspurð við Kjarnann að sá kostur að banna einfaldlega vinstribeygjuna inn á Bústaðaveg og út af honum, sem bent hefur verið á að myndi um leið eyða þörfinni fyrir hvoru tveggja mislæg gatnamót og umferðarljós á Reykjanesbrautinni, myndi auka umferðina á Sogavegi, Réttarholtsvegi og í slaufunum fyrir neðan Ártúnsbrekkuna.
Lausnin myndi því í raun ekki samræmast markmiðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins um greiðari samgöngur.
Í tillögunum sem fara til borgarinnar er því horft til þess að umferð af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg fari um mislæga lausn í frjálsu flæði og umferðarljósin við Sprengisand heyri sögunni til.
„Við erum búin að vera í mjög góðu samstarfi við borgina núna síðasta árið við að leysa þessi gatnamót, en þar spilar inn í lota þrjú í Borgarlínu, sem fer frá Mjódd og inn í Vogabyggð og svo áfram niður á BSÍ. Síðastliðinn vetur fór í að útfæra Reykjanesbrautina og Borgarlínuna í þessu þversniði og sjá í gegnum hvernig við tengjum okkur inn í stöðina í Vogabyggð og upp á Stekkjarbakkann, þannig að það verði hægt að aka Borgarlínu inn í Mjódd,“ sagði Bryndís í samtali við Kjarnann á dögunum.
Þurfi að tryggja flæði allra samgöngumáta
„Ég vona að fljótlega eftir sumarfrí getum við kynnt þær útfærslur sem hafa verið til skoðunar fyrir skipulagsráði borgarinnar. Fjölmargar lausnir hafa verið skoðaðar, sem snúa að útfærslu Reykjanesbrautar, gatnamótunum við Bústaðaveg og Borgarlínu á þessu svæði,“ segir Bryndís og bætir við að lausnir samgöngumannvirkja á svæðinu hafi reynst nokkur áskorun.
„Við erum með dalinn þarna alveg upp við sem er hverfisverndaður og svo er byggð hinumegin. Og allt stígakerfið. Það er verið að reyna að koma þessu haganlega fyrir,“ segir Bryndís einnig.
„Þetta er búið að vera mjög áhugavert verkefni, að reyna að koma fyrir lausnum, af því að þarna sameinar þú allar þrjá samgöngumátana. Þú ert með bílaumferðina, þú ert með Borgarlínu og svo ertu með öflugt hjólastígakerfi þarna og þú þarft að tryggja öllum pláss og flæði.
Það verður spennandi þegar við getum farið að sýna þetta í haust,“ segir Bryndís.