Verðbólgan í Bandaríkjunum nam 6,2 prósentum í síðasta mánuði, en hún hefur ekki verið hærri frá árinu 1990. Á sama tíma og verðbólgan hefur aukist hefur óánægja með forseta landsins, Joe Biden, vaxið. Biden sagði að frumvarpið hans um fjárfestingar í innviðum myndi draga úr þessum vanda, en ekki er búist við að seðlabankinn hækki vexti vegna hennar á allra næstu mánuðum.
Meiri eftirspurn og flöskuhálsar í framboði
Verðbólgutölurnar fyrir október voru birtar í gær, en samkvæmt frétt Bloomberg var hún drifin áfram af verðhækkunum á orku, húsnæði, matvöru og farartækjum. Þessar hækkanir má rekja til aukinnar eftirspurnar eftir efnahagslægðina sem myndaðist í kjölfar faraldursins, auk þess sem truflanir hafa orðið á framboði vegna flöskuhálsa í vöruflutningum og skorts á vinnuafli.
Þetta er mesta verðbólga sem mælst hefur í Bandaríkjunum í 31 ár, en hún nam 6,3 prósentum í nóvember árið 1990. Hún hefur hækkað hratt á síðustu mánuðum, en í lok febrúar nam hún einungis 1,7 prósentum þar í landi.
Hefur trú á innviðafrumvarpi
Í yfirlýsingu sem Biden sendi frá sér í gær segir Biden að frumvarp hans um innviðafjárfestingar, sem er nú til umræðu á Bandaríkjaþingi, muni taka á þessu vandamáli. Samkvæmt honum gætu bættir innviðir dregið úr hiksti í framleiðslu, sem myndi hafa neikvæð áhrif á verð.
„Við erum nú þegar í miðjunni á sögulegri efnahagsviðspyrnu,“ segir Biden í ávarpinu sínu sem sjá má hér að neðan. „Þökk sé allra aðgerðanna sem við höfum ráðist í munum við mjög bráðlega sjá virðiskeðjuna ná í skottið á eftirspurninni.“
President Biden says the supply chain will soon "catch up with demand" thanks to his bipartisan infrastructure deal and steps the U.S. is taking to ease bottlenecks https://t.co/LhNAtcfC2f pic.twitter.com/FXT72VLa5C
— Bloomberg Quicktake (@Quicktake) November 11, 2021
Hins vegar er ekki víst að frumvarp Biden muni ná í gegnum þingið, þar sem það veltur á stuðningi frá öldungadeildarþingmanninum Joe Manchin. Fréttamiðillin Axios greindi frá því í gær að Manchin hygðist ekki ætla að styðja frumvarpið, þar sem hann er óviss um hvaða áhrif það muni hafa á efnahagslífið vestanhafs.
Engar vaxtalækkanir enn
Stýrivextir seðlabanka Bandaríkjanna eru nú í 0,25 prósentum, en þeir hafa verið nálægt núll prósentum frá byrjun faraldursins í mars í fyrra. Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, sagði í síðasta mánuði að hann teldi vaxtahækkanir vera ótímabærar, þar sem hann telur yfirstandandi verðbólguskot einungis vera tímabundið.
Samkvæmt frétt CNBC frá í gær vænta markaðsaðilar vestanhafs hins vegar að vaxtahækkunarferlið þar byrji fyrr í ljósi nýútgefinna verðbólgutalna, en samkvæmt þeim eru 80 prósent líkur á að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósent í júlí á næsta ári. Fyrir birtingu verðbólgutalnanna töldu þeir að vextirnir yrðu ekki hækkaðir fyrr en í september 2022.
Aðeins Trump var óvinsælli
Líkt og Kjarninn fjallaði um fyrr í vikunni hafa vinsældir Biden minnkað hratt á sama tíma og verðlag hefur hækkað, en samkvæmt nýrri skoðanakönnun er meirihluti Bandaríkjamanna óánægður með frammistöðu hans sem forseta. Einungis einn forseti hefur mælst óvinsælli eftir jafnlangan tíma í embætti, en það var Donald Trump.