Ekkert land í heiminum framleiðir jafn mikla raforku á mann og Íslandi og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa af raforkuframleiðslu er óvíða hærra, eða nær hundrað prósent. Engu að síður hefur beinn arður Íslendinga af raforkuframleiðslu verið rýr. Það sést best á því að langstærsti raforkuframleiðandi landsins, Landsvirkjun, hefur í 50 ár greitt um 15 milljarða króna í arð að núvirði.
Þetta segir í nýjum Markaðspunktum frá greiningardeild Arion banka, þar sem spurt er hvernig nýta eigi orkuauðlindir landsins. „Nú er þó tækifæri til að snúa þessu við svo að eigendur þessara auðlinda njóta beins ágóða. Eftirspurn eftir grænni íslenskri raforku hefur líklega aldrei verið meiri og fer vaxandi,“ segir í markaðspunktunum. „Í nýtingarflokki rammaáætlunar eru nú virkjanakostir sem gætu framleitt um 9 terawattstundir (TWst) af raforku árlega og þar með aukið raforkuframleiðslu á Íslandi um u.þ.b. 50%. Um leið og velt er upp hvort ráðast eigi virkjanir þarf að spyrja: Hvert væri hagkvæmast að selja alla þessa raforku?“
Verð fyrir raforku þarf að standast ávöxtunarkröfu
Í greiningu Arion banka eru virkjanakostir í nýtingarflokki rammaáætlun raðað upp eftir núvirtum meðalkostnaði, skammstafað LCOE. „Ef við tökum sem dæmi Þeistareyki eftir stækkun, sem er ódýrasti virkjanakosturinn í nýtingarflokki rammaáæltunar, er LCOE um 35 bandaríkjadollarar á MWst, sem þýðir að virkjunin stenst ekki áætlaða ávöxtunarkröfu ef raforkuverð er undir því. Með öðrum orðum, fjármagni hefði verið betur varið í annað en virkjun ef raforkan verður seld á lægra verði. Ef verð er lægra en LCOE er beinlínis verið að niðurgreiða raforkuna.“
Um Hvammsvirkjun, sem nýlega var færð í nýtingarflokk rammaáætlunar, segir að miðað við 45 dollara núvirtan meðalkostnað þeirrar virkjunar þurfi Landsvirkjun að fá meira en hún fær fyrir orkuna í dag til þess að sú virkjun standist ávöxtunarkröfu. „Landsvirkjun þyrfti að fá hærra raforkuverð en í dag eigi sú virkjun að standast ávöxtunarkröfu. Fyrirtækið hefur gefið út að það stefni á að ná meðalverðinu upp í 43 US$/MWst, sem er svipað heildsöluverði til heimila er í dag. Á því verði myndi ríflega helmingur kosta standast gefna ávöxtunarkröfu,“ segir greiningardeild Arion banka.
Ekki forsendur fyrir nýju álveri
Í greininni er spurt hvort best sé að nýta raforkuna í sæstreng, raforku eða eitthvað annað. Rifjað er upp að hreinn hagnaður Landsvirkjunar og annarra orkuframleiðenda af sæstreng geti numið um 30 milljörðum króna á gengi dagsins í dag, standist forsendur sem meðal annars gera ráð fyrir að 80 dollarar fáist fyrir hverja MWst. Vísað er í nýlega greiningu frá bankanum þar sem fjallað var um kosti og galla sæstrengs, og kallað eftir frekari umræðu um verkefnið. Tekið er fram að mikil óvissa ríki um hverju sæstrengur gæti skilað og kanna þurfi kostinn áður en hægt sé að fullyrða nokkuð um hagkvæmni hans.
„Áliðnaðurinn er stærsti viðskiptavinur íslenskra orkufyrirtækja og skapar stóran hluta útflutningstekna landsins. Þrátt fyrir það virðast, sem stendur, ekki vera forsendur fyrir byggingu nýrra álvera hér á landi, m.v. það dæmi sem hér er tekið, sé horft til þess að núvirtur meðalkostnaður virkjanakosta er langt yfir því sem stóriðjan greiðir í dag. Sé miðað við núverandi meðalverð Landsvirkjunar, álframleiðslu á Íslandi, raforkukaup stóriðju og heimsmarkaðsverðs áls (frá London Metal Exchange) í júní sl., er raforkukostnaður álvera á Íslandi um 25% af tekjum þeirra. Hækki raforkuverð álvera upp í 43 US$/MWst, myndi raforkukostnaðurinn fara upp í 42% af tekjum. Því má ætla að álverð þyrfti að hækka umtalsvert ef nýtt álver ætti að borga sig,“ segir greiningardeild Arion um hagkvæmni byggingu nýs álvers á Íslandi.
Kannski skilar eitthvað allt annað mestu
Í lokakafla greiningarinnar segir að mögulega skili eitthvað allt annað en stóriðja eða sæstrengur þjóðinni mestum ábata. „Þá er einnig mögulegt að hvorki sæstrengur né álver skili þjóðinni sem mestum ábata af orkuauðlindum okkar heldur eitthvað allt annað. Aðalatriðið er ekki einungis að verkefni standist ávöxtunarkröfu heldur einnig að þau skili sem mestri arðsemi til eigenda íslenskra orkufyrirtækja – þjóðarinnar. Áhugi á orkuauðlindum Íslendinga hefur vaxið samhliða miklum ferðamannstraumi sem gerir ósnorta náttúru vafalítið enn verðmætari en áður, svo taka þarf einnig tillit til þess.
Áður en ónýtt orka í terawattavís verður bundin samningum um ný álver, aðra stóriðju eða sæstreng væri skynsamlegt að skoða jafnframt til hlítar aðra kosti sem skilað geta sem mestum heildarábata til þjóðarbúsins. Hvernig við síðan skiptum þeim ábata milli ríkis, landeigenda, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila er efni í aðra umræðu.“