Verðið á bensíni og olíu gæti hækkað um fimmtung hér á landi á næstu mánuðum og numið 327 krónum, að því gefnu að hrávöruverðsspár bandaríska fjárfestingabankans JPMorgan gangi upp og gengi krónunnar við Bandaríkjadal haldist óbreytt. Þetta kemur fram ef nýjustu upplýsingar úr Bensínvakt Kjarnans eru nýttar.
Hraðar hækkanir eftir innrásina
Financial Times greindi frá nýjustu spá JPMorgan í vikunni, en samkvæmt henni hefur innrás Rússa í Úkraínu leitt til mikilla verðhækkana á hráolíuverði, sem er nú komið upp fyrir 100 Bandaríkjadali á hverja tunnu. Sömuleiðis hefur heimsmarkaðsverðið á jarðgasi hækkað töluvert, en Rússland er þriðji stærsti olíuframleiðandi heimsins og stærsti seljandi á jarðgasi til Evrópu.
Samkvæmt bankanum hefur lítil fjárfesting í framleiðslugetu olíu og jarðgass leitt til þess að ekki sé hægt að bregðast við nýlegum verðhækkunum með aukinni framleiðslu, sem myndi jafna út verðið. Auk þess hefur gengið hratt á olíu- og gasbirgðir síðustu misserin, svo búist er við ört hækkandi verðlagi á næstunni.
Bensínvaktin spáir 327 kr. á lítrann
Kjarninn hefur, í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Seið, haldið úti reglulegri Bensínvakt, þar sem bensínverð hérlendis er reiknað út frá líklegu innkaupaverði, opinberum gjöldum og hluti olíufélaganna.
Samkvæmt þeim útreikningum – sem hægt er að kynna sér betur með því að skoða undirliggjandi gögn og reiknimódel á Excel sniði – hafa að meðaltali um 17 prósent af söluverði bensíns runnið til olíufélaga síðustu tvö árin. Í febrúar var hlutur þeirra tæplega 16 prósent, eða rúmlega 43 krónur á lítrann.
Til viðbótar bætast svo opinber gjöld, en það eru meðal annars almennt og sérstakt bensíngjald, sem nema samtals um 77 krónum á hvern lítra, og kolefnisgjald sem nemur um tíu krónum á hvern lítra. Þar að auki er virðisaukaskattur, sem er afreiknaður 19,35 prósent.
Að þessum forsendum gefnum, auk þess sem gert er ráð fyrir að gengi Bandaríkjadals við krónuna yrði óbreytt, má búast við að verðið á bensínlítranum hér á landi muni nema 327 krónum á næsta ársfjórðungi, rætist verðspár JPMorgan. Þetta jafngildir um 20 prósenta hækkun frá núverandi verðlagi.