Nýverið barst Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, bónda á Ljótarstöðum í Skaftártungu, ábyrgðarbréf í pósti. Í því leyndust tímamótafréttir: Lagt hefur verið til að friða vatnasviðs Skaftár, svæðisins sem orkufyrirtæki hafa í fleiri ár sóst eftir að virkja. Og með friðlýsingunni yrði Búlandsvirkjun, sem Heiða hefur barist af krafti gegn, aldrei byggð. „Þetta er besta jólakveðja sem ég hef nokkru sinni fengið,“ segir Heiða Guðný við Kjarnann, innt eftir viðbrögðum við friðlýsingartillögunni.
En þar sem þetta er tillaga og friðlýsingin ekki í höfn spyr blaðamaður hvort hún óttist að babb eigi eftir að koma í bátinn. „Ég trúi því að þetta haldi,“ svarar Heiða, „en er líka búin að læra það að ekkert er öruggt í þessu lífi, sérstaklega ekki ef það eru peningar einhvers staðar í spilinu.“
Samkvæmt lögum um vernd- og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, skal friðlýsa þau svæði sem ákveðið er að setja í verndarlokk áætlunarinnar, eða eins og segir orðrétt í lögunum: „Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar.“
Virkjunarkosturinn Búlandsvirkjun, sem Suðurorka, dótturfélag HS Orku, hefur verið með á teikniborðinu í Skaftá rétt við Hólaskjól, var settur í biðflokk 2. áfanga rammaáætlunar. Verkefnisstjórn 3. áfangans lagði árið 2016 til að hann færi í verndarflokk. Árin liðu og það var ekki fyrr en í vor, tæpum sex árum síðar, sem Alþingi afgreiddi tillöguna. Og þar með var Búlandsvirkjun komin í verndarflokk.
Það þýðir þó ekki að ekki megi hreyfa við þeirri flokkun. Raunin er sú að Alþingi getur ákveðið að færa virkjunarkosti innan rammaáætlunar svo lengi sem virkjunarleyfi hefur ekki verið gefið út fyrir kosti í nýtingarflokki og kostir í verndarflokki hafa ekki verið friðlýstir með lögum.
Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram til kynningar tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Skaftár á grundvelli flokkunar virkjunarkostarins Búlandsvirkjunar í rammaáætlun. Tilgangurinn er að vernda vatnasviðið gegn orkuvinnslu. Friðlýsingin nær til alls vatnasviðs Skaftár ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja og meginfarvegs árinnar og næsta nágrennis hans til sjávar.
Frestur til að skila athugasemdum við tillöguna er til og með 2. febrúar 2023. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir og vísar tillögu að friðlýsingarskilmálum til ráðherra.
Suðurorka áformaði að reisa 150 MW virkjun í Skaftá, í 319 m hæð yfir sjó, rétt við Hólaskjól. Þar átti að rísa stífla þvert yfir ána og veita bæði Skaftá og bergvatnsánni Syðri-Ófæru í göngum inn í grunnan dal við Þorvaldsaura. Þar stóð til að gera um 10 ferkílómetra miðlunarlón. Stöðvarhús átti að byggja við suðausturenda lónsins og þaðan átti að veita vatninu um önnur göng og út í Skaftá, skammt frá bænum Búlandi sem virkjunarkosturinn dregur nafn sitt af.
Framkvæmdin myndi hafa áhrif á þrjár ár; Skaftá sjálfa, Syðri-Ófæru og Tungufljót. Þetta hefði þýtt að farvegur Skaftár yrði vatnslítill á 14-15 kílómetra kafla. Framkvæmdin hefði einnig haft áhrif á Syðri-Ófæru og Tungufljót en þar stóð til að reisa stíflu í Rásgljúfri og miðlunarlónið hefði roðið í farvegi þess. Talið er að vatnsmagn í Tungufljóti þar sem það rennur í Kúðafljót hefði minnkað um 50 prósent og áin því ekki áfram til í núverandi mynd.
Skaftá á upptök sín í Skaftárjökli í vestanverðum Vatnajökli. Jökulhlaup eru algeng í Skaftá en þau verða vegna jarðhita undir jökli í Skaftárkötlum. Það svæði sem Búlandsvirkjun var áformuð á er stórbrotið, enda rétt við Eldgjá, hina 75 kílómetra löngu gossprungu sem er hluti af Kötlukerfinu og gaus árið 939. Ófærufoss fellur ofan í gjána, sem tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði og er svæðið vinsælt til útivistar.
Heiða Guðný lýsti baráttu sinni gegn Búlandsvirkjun í bók Steinunnar Sigurðardóttur, Heiða – fjalldalabóndi sem kom út árið 2016. Hún hafði áður vakið athygli á málinu, m.a. með skrifum sínum, og baráttan leiddi hana í pólitík í Skaftárhreppi. Hún hefur nú sagt skilið við þann kafla.
Er verkefnisstjórn 3. Áfanga rammaáætlunar lagði til að Búlandsvirkjun færi í verndarflokk héldu margir að þar með væri málið í höfn. Að öllu tali um virkjunina væri þar með sjálfhætt. En það reyndist ekki raunin. HS Orka gaf Búlandsvirkjun ekki svo auðveldlega upp á bátinn og sagði við Kjarnann í fyrra að hún teldi kostinn eiga „fullt erindi í nýtingarflokk“ rammaáætlunar. Endurmeta ætti þá þætti sem taldir voru neikvæðir og urðu til þess að virkjunin var sett í verndarflokk tillögunnar. „Að heyra þetta var enn eitt höggið í kviðinn,“ sagði Heiða í viðtali við Kjarnann af þessu tilefni. Hún sagði að hins vegar hefði mátt eiga von á því þar sem tillaga rammaáætlunar væri enn óafgreidd og svæðið ekki friðlýst. „Á meðan staðan er þannig þá er þetta yfirvofandi hætta. Þetta er ekki búið.“
En núna, þegar friðlýsingaráformin eru komin fram, er tilfinningin allt önnur. „Hún er dásamleg,“ segir Heiða. „Skaftá kom á undan okkur og hún mun lifa okkur öll, þangað til okkur tekst að bræða Vatnajökul það er að segja. Það er svo ekki síður gleðileg staðreynd að Tungufljót muni um ókomna tíð halda sínu blátæra vatnsmagni og renna í friði um sín móbergsgljúfur og aura og framhjá kotinu mínu.“