Blaðamannafélag Íslands hvetur Alþingi til þess að grípa til enn frekari aðgerða í þágu einkarekinna fjölmiðla en þegar hefur verið gert. „Beinir styrkir til einkarekinna miðla hafa þegar verið lögfestir, þótt einungis sé um tímabundið úrræði sé að ræða. Nauðsynlegt er að auka það fé sem veitt er til þeirra, endurskoða úthlutunarreglur svo þeir nái til fleiri miðla og gera úrræðið varanlegt. Þá er sú ráðstöfun[...]að taka RÚV af auglýsingamarkaði, nauðsynlegt skref í átt til hagfelldara rekstrarumhverfis. Það sem er ekki síður mikilvægt, og gæti skilað einkareknum fjölmiðlum enn meira rekstrarfé en auknar auglýsingatekjur með brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði, er skattlagning erlendu tæknirisanna. Hvetur Blaðamannafélag Íslands stjórnvöld til þess að leita allra leiða til þess að rétta af þá skökku samkeppnisstöðu sem þar er um að ræða, til að mynda með því að láta skatttekjur renna beint í sjóð sem deilist á einkarekna fjölmiðla.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn sem Blaðamannafélag Íslands hefur skilað inn um frumvarp tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar, um að taka RÚV af auglýsingamarkaði.
Frumvarp þingmannanna tveggja gengur út á að frá byrjun næsta árs og út árið 2023 verði RÚV gert óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og bannað að selja kostun á efni. Þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði verði svo hætt í byrjun árs 2024.
Vilja framlög á móti og að fréttastofan verði varin
Þótt Blaðamannafélag Íslands fagni því í umsögninni að Alþingi ræði nú það skref að taka RÚV af auglýsingamarkaði þá leggur félagið jafnframt á það höfuðáherslu að tryggja beri rekstur RÚV með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem vega muni upp á móti tekjutapi þegar auglýsingasölu verður hætt. „Þá er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingu til RÚV til lengri tíma, til að mynda 8-10 ára í senn og setja ákvæði inn í þjónustusamning þess efnis. Ennfremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir það að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar.“
Í frumvarpi Óla Björns og Brynjars er ekki gert ráð fyrir því að RÚV verði bætt það tekjutap sem fyrirtækið yrði fyrir vegna þess að fyrirtækið mætti ekki taka þátt á auglýsingamarkaði með öðrum hætti, en tekjur RÚV af samkeppnisrekstri voru 2,2 milljarðar króna árið 2019 og um tveir milljarðar króna í fyrra.
Hvetur Alþingi til að gera meira
Nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla var skipuð árið 2016 og skilaði af sér skýrslu í byrjun árs 2018. Sú nefnd, undir formennsku Björgvins Guðmundssonar, lagði til til alls sjö tillögur til að bæta umhverfið. Þær snéru meðal annars að stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá var einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna að finna í niðurstöðum nefndarinnar.
Félagið hvetur einnig Alþingi til þess að taka til skoðunar allar þær tillögur sem lagðar voru fram í nefndinni um rekstrarumhverfi fjölmiðla „því ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á að enn fleiri fjölmiðlar neyðist til að leggja árar í bát en nú þegar er orðið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélaginu enda er inn á það komið í frumvarpinu sjálfu.
Undir umsögnina ritar Sigríður Dögg Auðunsdóttir, nýkjörinn formaður Blaðamannafélagsins.
Síminn fagnar
Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Síminn, sem er skráð á markað og er að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefur einnig skilað inn umsögn um frumvarp þeirra Óla Björns og Brynjars. Þar segir fyrirtækið fagna frumvarpinu. „Loks er ætlunin að rétta við þá sérdeilis skökku samkeppnisstöðu sem einkareknir ljósvakamiðlar hafa þurft að þola gagnvart Ríkisútvarpinu alla tíð síðan 1986. [...]Frumvarpið ætti að vera með öllu sársaukalaust fyrir Ríkisútvarpið þar sem gefinn er rúmur aðlögunartími til breytinga og hafa ber í huga að sá umtalsverði kostnaður sem hlýst af sölustarfseminni ætti að lækka enn hraðar en tekjurnar skerðast. Einn er sá ávinningur sem sjaldan er ræddur en það er að Ríkisútvarpið mun batna verulega að gæðum þegar dagskrárdeildir verða loks frjálsar undan ægivaldi söludeildar sem ræður lögum og lofum í starfsemi stofnunarinnar í dag.“ Undir umsögnina ritar Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum.
Sú stoð sem hefur vaxið mest innan Símans undanfarin misseri er sjónvarpsþjónusta. Í fyrra jukust tekjur Símans í heild til að mynda um 868 milljónir króna þrátt fyrir það sem stjórnendur félagsins lýsa í nýlegri fjárfestakynningu að hafi verið „erfitt árferði“ vegna kórónuveirufaraldursins. Tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust mest, alls um 632 milljónir króna.
Þar munaði mest um tekjur af Premium-áskrift Sjónvarps Símans, sem jukust um hálfan milljarð króna, og auknar auglýsingatekjur, sem jukust um tæpar 100 milljónir króna. Síminn rekur ekki fréttaþjónustu.
Tekjur vegna áframhaldandi starfsemi Símans jukust um 99 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2021, miðað við það sem þær voru á sama tíma í fyrra. Af þeirri upphæð komu 39 milljónir króna, tæp 40 prósent, frá auknum tekjum vegna sjónvarpsþjónustu. Í fjárfestakynningunni segir að auglýsingasala hafi gengið vel og aukist talsvert milli ára.
Hópur sem átti að skoða RÚV hefur ekki skilað af sér
Í febrúar fól Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þremur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að rýna lög um RÚV og gera tillögur að breytingum sem líklegar eru til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk þess.
Fulltrúar flokkanna eru Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúi Vinstri grænna sem er jafnframt formaður hópsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, og Páll Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi útvarpsstjóri.
Ráðgert var að þau myndu ljúka störfum eigi síðar en 31. mars. Nú, rúmum tveimur mánuðum síðar, hefur hópurinn enn ekki lokið störfum.
Frumvarp Óla Björns og Brynjars var lagt fram eftir að hópurinn var skipaður og á meðan að hann var enn að störfum. Kolbeinn gagnrýndi það í samtali við Kjarnann 1. apríl síðastliðinn. „Ég klóra mér í kollinum yfir þessu. Mér finnst mjög furðulegt að leggja fram svona mál á meðal að ég sit með öðrum þingmanni þeirra flokks í starfshópi þar sem við erum að fara yfir þessi mál, þar á meðal þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði.“
Þrátt fyrir það fengu Óli Björn og Brynjar að mæla fyrir frumvarpinu 18. maí og það fór svo til frekari vinnslu í allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur það nú til umfjöllunar.