Sajid Javid, sem tók nýlega við sem heilbrigðisráðherra í Bretlandi, baðst í dag afsökunar á því að hafa sagt að kominn væri tími til þess að læra að lifa með veirunni, í stað þess að fólk „hnipraði sig saman“ gagnvart henni.
Ýmsir tóku ummælin óstinnt upp og var heilbrigðisráðherrann sagður ófær um að átta sig á áhyggjum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og sérstaklega viðkvæmir gagnvart veirusmiti. Sömuleiðis þótti aðstandendum þeirra sem hafa látist vegna veirunnar ráðherrann ekki hafa valið góð orð.
Ráðherrann setti ummæli sín fram á Twitter í gær, en hefur í dag beðist afsökunar sem áður segir og eytt fyrri færslu sinni.
I've deleted a tweet which used the word "cower". I was expressing gratitude that the vaccines help us fight back as a society, but it was a poor choice of word and I sincerely apologise.
— Sajid Javid (@sajidjavid) July 25, 2021
Like many, I have lost loved ones to this awful virus and would never minimise its impact.
„Ég var að lýsa yfir þakklæti fyrir það að bóluefnin eru að hjálpa okkur að ná viðspyrnu sem samfélag, en þetta var lélegt orðaval og ég biðst einlæglega afsökunar,“ skrifar Javid á Twitter í dag.
Hann segist jafnframt, eins og margir aðrir Bretar, hafa misst nákomna vegna veirunnar og myndi aldrei gera lítið úr áhrifum hennar.
Sjálfur greindist heilbrigðisráðherrann með COVID-19 um miðjan mánuðinn og þurftu bæði Boris Johnson forsætisráðherra og Rishi Sunak fjármálaráðherra að fara í sóttkví eftir að hafa fundað með honum skömmu áður en smitið kom í ljós.
Öllum takmörkunum vegna veirunnar á borð við fjöldatakmarkanir, hömlum á opnunartíma skemmtistaða og grímuskyldu var aflétt í Bretlandi þann 19. júlí.
Þá voru um 50 þúsund smit að greinast á hverjum degi, en síðan þá hefur fjöldi daglegra smita farið undir 30 þúsund. Sérfræðingar hafa þó áhyggjur af því að smitkúrvan kunni að taka aðra sveiflu upp á næstu dögum.