Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna lækkunar á vörugjaldi af bensín- og dísilbílum sem bílaleigur keyptu árið 2021, á grundvelli tímabundins ákvæðis sem innleitt var í lög árið 2020, var 875 milljónir króna. Alls 23 bílaleigur nýttu sér ákvæðið um lækkun vörugjalda. Samkvæmt tekjuáætlun sem liggur til grundvallar fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna lækkunar vörugjalds á grundvelli lækkunarinnar verði um einn milljarður króna í ár.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.
Á árinu 2021 hefur engin ökutækjaleiga fengið lækkun á vörugjaldi tengiltvinnbílum.
Umrædd ívilnun, sem var innleidd í nafni orkuskipta og aðgerða gegn loftslagsbreytingum, felur í sér að bílaleigur fá allt að 400 þúsund króna afslátt af vörugjaldi vegna allra bíla sem þær kaupa, hvort sem bílarnir ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eða öðrum orkugjöfum, svo lengi sem hlutfall bensín- og dísilbíla af heildarinnkaupum er ekki hærra en 85 prósent árið 2021 og 75 prósent árið 2022.
Fengu afslátt á öllu gegn því að flytja inn fleiri hreinorkubíla
Virðisaukaskattur hefur verið felldur niður, upp að vissu marki, vegna innflutnings á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílum frá því um mitt ár 2012.
Þetta var rökstutt á þeim grundvelli að bílaleigur kaupi inn stóran hluta allar nýskráðra bíla hérlendis, selji þær svo á almennum markaði eftir tiltekin tíma og hafi því veruleg áhrif á þróun og samsetningu bílaflotans á Íslandi.
Þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins studdu lagabreytinguna en Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins lögðust gegn henni.
„Óskilvirk aðgerð sem orki tvímælis“
Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi Alþingi í desember síðastliðnum, vegna umsagna sem bárust um bandorm vegna fjárlagafrumvarps ársins 2022 og viðbrögð þess við þeim, var þessi vörugjaldsívilnun harðlega gagnrýnd.
Þar sagði að mat ráðuneytisins væri að ívilnunin, sem hafði það markmið að draga úr losun koltvísýrings, væri „óskilvirk aðgerð sem orki tvímælis“. Hún geri jarðefnaeldsneytisbíla ódýrari og vinni því að hluta gegn rafvæðingu bílaleigna. „Bílaleigur í heild hafa nú þegar náð 27 prósent hlutdeild vistvænna bíla í nýskráningum það sem af er þessu ári, en hverri og einni nægir 15 prósent hlutdeild árið 2021 og 25 prósent hlutdeild árið 2022 til að fá verulegan skattafslátt af jarðefnaeldsneytisbílum sínum. Hjá bílaleigum sem hafa náð tilskilinni hlutdeild skapar kerfið hvata til að kaupa jarðefniseldsneytisbíla sem síðan fara í endursölu að 1-2 árum liðnum [..] Í ljósi mikils veltuhraða í nýskráningum og endursölu bílaleigubíla er hætta á að slíkt fyrirkomulag geti verið til þess fallið að tefja orkuskiptin, einkum sé tekið tillit þess að tekjutap ríkisins í formi eftirgjafar af vörugjaldi er ígildi fórnaðra framlaga til annarra aðgerða í þágu loftslagsmála.“
Þurfa að endurgreiða með álagi ef skuldbindingu er ekki mætt
Í svari Bjarna við fyrirspurn Jóhanns Páls segir að hinn 15. janúar síðastliðinn hafi bílaleigum borið að skila til Skattsins skýrslu um hvernig þær hafa staðið við þá skuldbindingu, sem ákvæðið um vörugjaldaívilnunina mælti fyrir um, að keypt vistvæn ökutæki á árinu 2021 nemi 15 prósentu af heildarinnkaupum á ökutækjum á því ári.
Þar segir að Skatturinn vinni nú að því að fara yfir skýrslurnar. „Komi í ljós að ökutækjaleiga hafi ekki staðið við skuldbindinguna ber henni að endurgreiða í ríkissjóð alla þá vörugjaldslækkun sem hún fékk á árinu 2021 [...] að viðbættu 10 prósent álagi, og skal endurgreiðslan innt af hendi þriðjudaginn 1. febrúar. Ákvarðanir Skattsins um endurgreiðslu vörugjalda, ef til þess kemur, liggja fyrir um mánaðamótin.“