„Þegar þessi umræða byrjar úti í samfélaginu á hverju hausti, um að það sé miklu meiri umferð heldur en síðasta haust, þá er það bara alveg rétt. En það er af því að okkur hefur ekki tekist að bjóða íbúunum upp á aðra alvöru valkosti,“ sagði Hrafnkell Á. Proppé skipulagsfræðingur við Kjarnann í ítarlegu viðtali, sem birtist í heild sinni í síðustu viku.
Í viðtalinu fór hann yfir nauðsyn þess að breyta ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu og byrja að bjóða þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu upp á aðra alvöru valkosti en einkabílinn til að komast á milli staða. Hann benti á það, sem stundum gleymist í umræðunni um þróun samgangna og skipulags í Stór-Reykjavík, að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa sameinuð að þeirri framtíðarsýn að byggja upp þéttara borgarsvæði með hágæða almenningssamgöngum.
„Það er ekki hægt að halda áfram hina leiðina,“ sagði Hrafnkell og nefndi að hann hefði nýlega haldið erindi á ráðstefnu um loftslagsmál, þar sem hann setti landþörf samgangna í samhengi við loftslagsmálin. „Undanfarið hefur árleg fjölgun á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði verið um 4.000 íbúar. Miðað við hvernig við erum að þjónusta ferðaþörf þessa fólks í dag þá bætast við 3.000 bílar á hverju ári. Ef þú myndir raða þessum bílum öllum upp á rauðu ljósi við Kringlumýrarbrautina þá myndi röðin enda við Kúagerði, á milli Straumsvíkur og Voga. Þetta færi í gegnum Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og endaði í Vogum á Vatnsleysuströnd, leið sem væri 22 kílómetrar,“ sagði Hrafnkell.
Þrjúhundruðþúsund fermetrar fyrir bílastæði
Til viðbótar við plássið sem bílarnir taka á götunum þyrfti einnig að skaffa þeim bílastæði. Hann segir að ætla megi að hver bíll sem er í umferð þurfi um fjögur bílastæði hér og þar um borgarsvæðið og að hvert bílastæði taki um 25 fermetra af plássi – sem geri 30 hektara, eða 300.000 fermetra, fyrir þá 3.000 bíla sem bætist við í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á ári hverju.
Þetta geymslupláss undir bíla er vandfundið inni í miðri borg, sagði Hrafnkell og benti svo á neikvæð umhverfisáhrif þess að moka jarðvegi upp fyrir bílakjallara undir alla þessa bíla og hauga hann upp einhversstaðar utan borgarmarkanna.
„Um leið og þú haugar hann upp byrjar bruni á kolefni, og á sama tíma eru stjórnvöld að setja aura í að moka ofan í einhverja skurði. Við erum ekki að hugsa um þetta samhengi, þessi þróun getur ekki gengið áfram – það eru engin geimvísindi. Borgarsamfélög geta ekki tekist á við vöxtinn nema með því að mæta ferðaþörfinni með sjálfbærari og skilvirkari hætti. Þar sem þú getur flutt fleira fólk með minni tilkostnaði fyrir samfélagið í heild sinni. Þá er ég bara að tala um allan tilkostnað, líka þann sem sparast við að taka minna pláss. Því við höfum einfaldlega ekki ótakmarkað pláss,“ sagði Hrafnkell.
Stæði í bílakjallara á 6-10 milljónir króna
Hann kom einnig inn á það í viðtalinu hversu mikill kostnaður heimila og fyrirtækja væri við það að fórna landi undir bílastæði – og benti á að sá kostnaður margfaldaðist ef bílastæðin væru í niðurgröfnum bílakjöllurum.
„Íbúðin sem þú ætlar að kaupa þér verður miklu dýrari. Bílastæði kostar kannski 6-10 milljónir og ef þú ætlar að kaupa þér íbúð á 50 milljónir þá er helvíti dýrt að þurfa að borga upp undir 10 milljónir í bílastæði. Þetta er orðið langdýrasta herbergið í húsinu,“ sagði Hrafnkell.