Birgir Þórarinsson, sem yfirgaf Miðflokkinn í lok síðustu helgi og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, segir að fimm dögum fyrir kjördag hafi borist tölvupóstur frá yfirstjórn Miðflokksins sem í stóð að það væri hæpið að framboðslisti flokksins í Suðurkjördæmi, sem Birgir leiddi, stæðist lög flokksins. Það hafi verið ótrúlegar kveðjur frá yfirstjórn flokksins í síðustu vikunni fyrir kjördag.
Birgir segir að hann og samstarfsfólk hans í kjördæminu hafi verið sár og svekkt yfir þessu en að það hafi ekki verið aftur snúið á þessum tímapunkti, enda nokkrir dagar í kosningar. Þegar talið hafi verið upp úr kjörkössunum 25. september hafi niðurstaðan verið, að mati Birgis, afhroð fyrir Miðflokkinn. „Ég sé þá fram á það að fara að vinna með tveimur mönnum, annar þeirra hefur markvisst unnið gegn mér og að fá það í gegn að ég yrði ekki oddviti. Hinn horfði á með fálæti.“ Sá fyrri sem Birgir talar um er Bergþór Ólason, oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, og sá síðari Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins.
Þetta kom fram í viðtali við Birgi í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Hefði mögulega átt að geyma það að skipta um flokk
Birgir hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa boðið sig fram á fölskum forsendum fyrir Miðflokkinn, enda sagði hann sig úr flokknum innan við tveimur vikum eftir að hann var endurkjörinn á þing fyrir hann og áður en kjörbréf höfðu verið afhent.
Hann viðurkenndi í viðtalinu að ef hann líti í baksýnisspegilinn þá hefði hann mögulega átt að geyma það í einhvern tíma að skipta um flokk. „Það er kannski eðlilegt að menn telji að ég sé að svíkja fólk með þessari ákvörðun. En ég vil þó segja það að ég veit að margir kusu mig persónulega. Og við þá sem kusu Miðflokkinn vil ég segja að við skulum hafa það í huga að flokkurinn beið afhroð í þessum kosningum og mun ekki ná neinum málum fram.“ Það sé þó alrangt að vistaskiptin hafi verið fyrirfram skipulögð.
Birgir segist ekki viss um að Miðflokkurinn hefði náð inn á þing ef það væri ekki fyrir þann árangur sem hann, Erna Bjarnadóttir og þeir sem unnu með þeim náðu í Suðurkjördæmi.
Segir að veist hafi verið að heimili hans
Erna tilkynnti í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hún myndi ekki fylgi Birgi ekki yfir í Sjálfstæðisflokkinn heldur ætli að starfa áfram í Miðflokknum.
Hann telur að hörð umræða hafi haft mikil áhrif á hana, líkt og hún hefur haft á hann sjálfan. „Það hefur til dæmis verið veist að mínu heimili í þessari umræðu, og menn eru farnir að seilast ansi langt. DV hefur verið að birta myndir af mínu heimili og gera lítið úr þeim og tengja þessari umræðu. Þannig að fjölskyldan hefur heldur ekki fengið frið þannig að mér finnst fjölmiðlar vera komnir ansi langt í þessari gagnrýni.
Klausturmálið ástæðan
Birgir birti grein í Morgunblaðinu á laugardag þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni um að skipta um flokk og ástæðum þess. Þar sagði hann að málið ætti rætur sínar að rekja aftur til Klausturmálsins.
Birgir fór ítarlega yfir þá atburðarás í viðtalinu í morgun, en hann sagði þá opinberlega að framferði sexmenninganna sem voru á Klaustri 20. nóvember væri andstætt kristilegum gildum.
Í þeim hópi voru fjórir þáverandi þingmenn Miðflokksins og tveir sem síðar gengu til liðs við flokkinn úr Flokki fólksins. Þeir þingmenn Miðflokksins sem tóku þátt í samsætinu á Klaustri þyrftu, að mati Birgis, að gera það upp við sig hvort þeir segðu af sér eða ekki. Þeir sögðu ekki af sér.
Fyrirferðamestir á Klaustri voru Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, sem töluðu með klámfengnum og niðrandi hætti um meðal annars aðra þingmenn og einn ráðherra.
Með hnút í maganum fyrir þingflokksfundi
Birgir segir að vegna þess að hann gagnrýndi samflokksmenn sína opinberlega hefði hann orðið að vandamálinu í flokknum. „Ég var tekinn fyrir á þingflokksfundum. Það eru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir að hafa gagnrýnt þá. Það eru tveir fundir haldnir þar sem ég er eini dagskrárliðurinn. Þegar það á að halda þriðja fundinn að þá sagði ég að nú væri nóg komið og að ég væri farinn ef þessi fundur yrði haldinn. Þá var hann ekki haldinn. Ég var á þeim tímapunkti reiðubúinn að fara.“
Birgir segir að þess hafi verið krafist að hann myndi skrifa opinberlega afsökunarbeiðni til þeirra fyrir að hafa gagnrýnt þá. Þið sjáið hversu harkaleg umræða þetta var. „Ég var vandamálið, ekki þeir.“
Í kjölfarið hafi hann verið með hnút í maganum í margar vikur þegar hann átti að mæta á þingflokksfundi. Síðan hafi tíminn liðið og þegar leið að kosningum 2021 hafi komið í ljós að þetta mál væri ekki gleymt. Koma ætti í veg fyrir að Birgir yrði oddviti í Suðurkjördæmi. „Það var markvisst, alveg frá áramótum, reynt að vinna markvisst þannig að ég yrði ekki í forsvari fyrir flokkinn.“‘