„Það er óheppilegt að það sé óvissa uppi, en það er íslenskra dómstóla að skera úr um þetta álitaefni. Fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir er ekki hægt að segja til um hver áhrif verða á fjármálamarkaði,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðustöðu EFTA-dómstólsins frá því í morgun, en hann komst að því að ekki sé heimilt að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði ef verðbólgan er hærri eða lægri en sú tala. Dómstóllinn var beðinn um að gefa ráðgefandi álit í máli Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum, sem höfðað hafði verið vegna verðtryggðs neytendaláns sem Sævar tók haustið 2008.
Í niðurstöðunni segir skýrlega að það sé landsdómstóls að meta hvaða áhrif það hafi að gefa rangar uppýsingar um heildarlántökukostnað og hvaða úrræðum sé hægt að beita til að bæta fyrir þær upplýsingar.
Bjarni sagði í samtali við Kjarnann að Fjármálaeftirlitið væri búið að vinna ákveðna undirbúningsvinnu, þar á meðal teikna upp sviðsmyndir út frá gefnum niðurstöðum dómstóla um hver áhrifin gætu orðið á fjármálamarkaði. Hann sagði ekki tímabært að tjá sig um þessar sviðsmyndir eða gera þær opinberar á þessar stundu. „Dómstólar eiga síðasta orðið um þetta álitamál. Íslenska ríkið er ekki aðili í þessu máli, og því er það ekki þess að óska eftir flýtimeðferð. Það er þá frekar Landsbankinn sem gæti gert það,“ sagði Bjarni.
Eins og fram kom í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, þá gæti þessi niðurstaða haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Hæstiréttur Íslands hefur nú tvo valkosti: annað hvort horfir hann til fyrstu málsgreinar 14. greinar gömlu laganna um neytendamál. Þá verða öll verðtryggð neytendalán ólögmæt og verðbætur vegna þeirra þarf þá væntanlega að endurgreiða. Það þýðir að lánveitendur þurfa að borga til baka allar verðbætur vegna fasteignalána, bílalána, yfirdrátta og annarra verðtryggðra neytendalána sem tekin hafa verið frá því að tilskipun Evrópusambandsins var innleidd. Hæstiréttur getur líka horft til þriðju málsgreinar sömu laga og komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggð lán séu ekki ólögmæt.