Bjarni Jónsson er nýr oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Hann hlaut alls 543 atkvæði í fyrsta sæti listans í rafrænu forvali sem hófst á föstudag og lauk í dag.
Auk Bjarna sóttist núverandi oddviti flokksins í kjördæminu og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Lilja Rafney Magnúsdóttir, eftir því að leiða listann. Hún þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Bjarna og lenti í öðru sæti í forvalinu með alls 565 atkvæði í fyrsta og annað sætið samtals. Í þriðja sæti er Sigríður Gísladóttir.
Bjarni er sonur Jóns Bjarnasonar, sem var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrstu ríkisstjórn sem Vinstri græn sátu í á árunum 2009-2013. Jón sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna áður en að það kjörtímabil leið undir lok. Þá er Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri bróðir Bjarna.
Nýir oddvitar verða hjá Vinstri grænum í öllum kjördæmum nema líkast til Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, þar sem Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir munu nær örugglega leiða áfram. Þeir sitjandi þingmenn sem hafa sóst eftir lausum oddvitasætum hafa ekki uppskorið eins og þeir ætluðu. Kolbeinn Óttarsson Proppé ætlaði að færa sig úr Reykjavík í Suðurkjördæmi og sóttist eftir oddvitasæti þar. Honum var hafnað með afgerandi hætti og lenti í fjórða sæti í forvali sem Hólmfríður Árnadóttir vann. Kolbeinn tilkynnti í gær að hann ætlaði að reyna að komast á lista Vinstri grænna í Reykjavík í staðinn.
Í Norðausturkjördæmi, þar sem Steingrímur J. Sigfússon hefur leitt lista Vinstri grænna frá árinu 1999, var laust oddvitasæti eftir að fyrrverandi formaður flokksins tilkynnti að hann hyggðist hætta þingmennsku eftir þetta kjörtímabil. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sitjandi þingmaður, sóttist eftir því að fylla það skarð en hún laut í lægra haldi fyrir Óla Halldórssyni.
Í Suðvesturkjördæmi var oddvitasætið einnig laust eftir að Rósa Björk Brynjólfsdóttir yfirgaf flokkinn. Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður vildi fá það sæti en tapaði í forvali fyrir varaformanninum og umhverfisráðherranum Guðmundi Inga Guðbrandssyni.