Stórhýsi ríkisins undir fjölmarga löggæslu- og viðbragðsaðila, svokölluð björgunarmiðstöð, sem gert er ráð fyrir að þurfi að vera um 26 þúsund fermetrar að stærð, mun fá um 30 þúsund fermetra lóð undir starfsemi sína á milli Klepps og Holtagarða.
Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fimmtudag tillögu borgarstjóra um að borgin myndi kalla eftir úthlutun lóðarinnar frá Faxaflóahöfnum og á sama fundi var sömuleiðis samþykkt að gera makaskiptasamning við ríkissjóð.
Sá samningur felst í því að borgin framselji lóðarleiguréttindi að lóðinni á milli Klepps og Holtagarða til ríkisins en fái staðinn til eignar svipað stóra ríkislóð sunnan við Borgarspítalann í Fossvogi. Á lóðinni í Fossvogi stendur til að þróa íbúabyggð, samkvæmt áætlunum Reykjavíkurborgar.
Á fundi borgarráðs á fimmtudaginn fögnuðu fulltrúar meirihlutans „tímamótasamningi“ sem myndi tryggja að björgunarmiðstöðin risi í Reykjavík, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá og létu bóka að lóðin væri „skuggalega nálægt vegstæði Sundabrautar“.
Stórhýsi undir ýmsa löggæslu- og viðbragðsaðila
Sumarið 2020 auglýsti Framkvæmdasýsla ríkisins eftir lóð undir miðstöð fyrir marga helstu löggæslu- og viðbragðsaðila landsins, en væntanleg björgunarmiðstöð á að nýtast embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslunni, Tollgæslunni, Neyðarlínunni, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Flestar þessar stofnanir eru nú að einhverjum hluta með starfsemi sína í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, en húsnæðið þar hefur um árabil þótt óhentugt undir starfsemina.
Þegar auglýst var eftir lóð undir björgunarmiðstöðina, sem kölluð hefur verið HVH (húsnæði viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu) í opinberum skýrslum um verkefnið, var gerð krafa um að lögregla gæti komist að lóðinni frá stjórnarráðsreit, Alþingi og miðbæ Reykjavíkur.
Allt frá því síðla árs 2020 hafa svo verið þreifingar um nákvæmlega þessa lóð sem Reykjavíkurborg mun nú, í samstarfi við Faxaflóahafnir, láta ríkinu í té í skiptum fyrir lóðina við Borgarspítalann.
Lóðargjald gæti numið 654 milljónum
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að lóðargjald fyrir lóðina við Holtagarða, miðað við að nýtingarhlutfall á lóðinni verði 0,5, sé 390 milljónir króna, sem Reykjavíkurborg greiði Faxaflóahöfnum við úthlutun.
„Fyrir umfram byggingarmagn greiðist viðbótarlóðargjald sem nemur gatnagerðargjaldi. Miðað við fjárhæð gatnagerðargjalds nú og að húsnæðið undir almannaþjónustuna verði 26 þúsund fermetrar, myndi viðbótarlóðargjald nema um 264 milljónum króna. Samanlagt yrði fjárhæð lóðagjalds þá um 654 milljónir. Umfram fjárhæðin kemur til greiðslu við útgáfu byggingarleyfis,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Þar kemur einnig fram að Reykjavíkurborg muni annast endurskoðun á gildandi deiliskipulagi lóðar björgunarmiðstöðvarinnar og eftir atvikum aðalskipulagi borgarinnar, í samvinnu við ríkið. Við gerð deiliskipulags á meðal annars að skilgreina byggingarheimildir og umferðartengingar með hliðsjón af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á lóðinni.
„Verði þörf á viðbótarlandi eða athafnasvæði til að tryggja forgangsakstur eða umferðarflæði mun Reykjavíkurborg taka jákvætt í slíkar umleitanir verði sýnt fram á mikilvægi þess,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Íbúðabyggð verði þróuð sunnan við Borgarspítala
Í makaskiptunum framselur Reykjavíkurborg sem áður segir lóðarleiguréttindi að lóðinni á milli Klepps og Holtagarða, en fær í staðinn til eignar frá ríkinu lóðina sunnan við Borgarspítalann.
„Á lóðinni í Fossvogi mun Reykjavíkurborg þróa aukna íbúðabyggð og þegar þeirri vinnu lýkur verður hægt að bjóða til sölu byggingarrétt á lóðum á svæðinu,“ segir í tilkynningu borgarinnar um þetta mál.
Í drögum að makaskiptasamningi borgarinnar og ríkisins, sem birt voru með tillögu borgarstjóra, segir að við þróun íbúðarbyggðar á svæðinu verði gætt að því að fyrirhuguð uppbygging hafi ekki áhrif á nýtingu spítalabyggingarinnar undir heilbrigðisþjónustu.