Þau tólf blöð sem útgáfufélagið Fótspor ehf. gaf áður út, og Vefpressan keypti í sumar, munu halda áfram að koma út og fleiri blöð munu bætast við. Þetta segir Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi og stjórnarformaður Vefpressunnar, við mbl.is. Á meðal þeirra blaða sem Fótspor hefur haldið úti eru Reykjavík Vikublað og Akureyri Vikublað.
Hann segir ástæðu þess að útgáfan hafi ekki hafist á ný eftir kaup Vefpressunnar á blöðunum sé sú að beðið sé samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir kaupunum. Þegar það liggi fyrir verði aftur hafin útgáfa á blöðunum og að "ný blöð munu líta dagsins ljós".
Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi og útgefandi Vefpressunar, sem á meðal annars DV.
Vefpressan, fyrirtæki Björns Inga, keypti Fótspor, í lok júlí. Hún á einnig vefina Eyjuna, Bleikt, Pressuna, DV.is og dagblaðið DV. Ámundi Ámundason var ábyrgðarmaður blaða og auglýsingastjórn Fótspors, en hann sagði við það tækifæri við Vísi að Vefpressan hefði keypt útgáfuréttinn að blöðunum. Rekstri Fótspors yrði hætt en Ámundi myndi starfa hjá Vefpressunni. Hann sagði Björn Inga hafa haft samband við sig að fyrra bragði.
Allir ritstjórar blaðanna sem Fótspor gaf út voru verktakar. Því var hægt að segja upp verksamningum þeirra með viku uppsagnarfresti. Björn Þorláksson, sem var ritstjóri Akureyri vikublaðs, gaf það út skömmu eftir að gengið hafði verið frá kaupunum að hann myndi ekki starfa áfram undir stjórn nýrra eigenda. „Ekki séns í helvíti, Björn Ingi Hrafnsson,“ sagði hann um það eftir að hafa hugsað málið í tvær nætur að eigin sögn. Hann sagði á Facebook-síðu sinni að hann gæti aldrei átt trúnað við Björn Inga, „því ég trúi ekki að þú hafir trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með þinni útgáfustarfsemi. Held að þín áhersla sé á hreina sérhagsmuni.“