„Ég persónulega vonaðist til að þetta væri búið þegar svona margir voru orðnir bólusettir. Eftir á að hyggja hafði ég ekki forsendur til þess að ætla annað en vonin um að faraldurinn væri búinn skyggði samt á alla aðra möguleika hjá mér. Ég er í starfi þar sem ég ætti að gera betur hins vegar og gerði þau mistök í þessu tilfelli. Ég biðst innilega afsökunar á því,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í færslu á Facebook í morgun. Hann segist ekki hafa farið fram á afsökunarbeiðni frá ríkisstjórninni „en ætli hún sé ekki bara sjálfsögð, sérstaklega eftir þetta?“
Með færslunni deilir Björn Leví frétt Vísis frá því í gær þar sem haft var eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún ætlaði ekki að biðja þjóðina afsökunar, líkt og Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, segir þjóðina eiga inni hjá ríkisstjórninni vegna „kolrangrar sóttvarnarstefnu“.
Katrín sagði að engrar afsökunarbeiðni væri þörf „á því að árangur okkar Íslendinga er með því besta sem gerist í heiminum þegar kemur að baráttunni við þennan faraldur. Ég ætla ekki að þakka ríkisstjórninni þennan árangur eingöngu. Hann er auðvitað fyrst og fremst okkar góða fagfólki og framlínufólki að þakka og aðallega þjóðinni sjálfri“.
Björn Leví skrifar að í öllum faraldrinum hafi stjórnvöld verið í „gríðarlega miklum“ samskiptum við sóttvarnayfirvöld „en nær engum samskiptum við stjórnarandstöðuna“. Hann segir því að upplýsingar um „mögulegar“ sviðsmyndir hafi verið „engar“. Ekki hafi þó vantað beiðnir um samráð, skrifar þingmaðurinn, og rifjar upp ræðu sína frá því í apríl þar sem hann sagði stjórnarandstöðuna hafa reynt að fá að sjá á spil meirihlutans í um það bil heilt ár. „Við erum að sjá þetta ítrekað hjá öllum ráðuneytum, líka hjá ráðuneyti hæstvirts heilbrigðisráðherra, þar sem toga þarf út upplýsingar með töngum og þegar það tekst þá eru þær ekki fullnægjandi,“ sagði Björn m.a. í ræðunni.
Hann skrifar í Facebook-færslunni í morgun að stjórnvöld hljóti að hafa haft mögulegar sviðsmyndir í huga, að minnsta kosti vitað af þeim, er takmörkunum var aflétt í lok júní. Í minnisblaði sóttvarnalæknis um afléttingar innanlands sé fjallað um að „þetta væri ekki búið,“ rifjar Björn Leví upp.
„Alvarlegustu mistökin virðast þó hafa legið í því hvernig landamærin voru opnuð,“ heldur hann áfram. „Ef ekki að formi, þá að magni. En engin sviðsmynd var dregin upp í minnisblaðinu um smit bólusettra – sem hefði þó átt að geta verið möguleiki. Þar hafa stjórnvöld ekkert að afsaka fyrir sérstaklega nema kannski að hafa gleymt þeim möguleika.“
Hann spyr hvort að ríkisstjórnin ætti að biðjast afsökunar. „Það kostar ekkert. Þannig að ég skil ekki þvermóðskuna í að neita að gera það. Stjórnvöld eru í þjónustu við okkur öll og jafnvel þó það væri ekki hægt að benda á að neitt sé þeim að kenna þá er þetta fólkið sem ákveður að taka sér þessa ábyrgð. Staðreyndin er hins vegar sú að það er hægt að benda á ýmislegt sem betur hefði mátt fara - þannig að það er alveg tilefni til þess að biðjast afsökunar. Að minnsta kosti miklu frekar en að þvertaka fyrir það.“
Engin þolinmæði fyrir efasemdir
Í viðbót við færsluna, sem sett er fram í kommenti, biðst Björn Leví sjálfur afsökunar og segist sjá eftir því að hafa ekki rýnt í forsendur og aðstæður betur og mögulega gagnrýnt það þegar afléttingar takmarkana voru kynntar. „Samhliða því veit ég ekki hvort ég hefði þorað að láta í ljós efasemdir á þeim tíma, það var engin þolinmæði fyrir slík orð í þjóðfélaginu – á meðan það er samt skylda stjórnvalda að þora að segja slíkt og ég tel sjálfan mig með þar. Þingmenn eiga að geta sagt frá, líka þegar það er óþægilegt. Sérstaklega þá.
Ég dreg minn lærdóm af þessari reynslu og sé eftir að hafa ekki gert betur.
Þó mér finnist eins og ég hefði ekki getað haft nein áhrif á framvindu mála, þá afsakar það ekki það að reyna það ekki. Það, frekar en allt annað, er ástæðan fyrir því að ég er að bjóða fram þjónustu mína. Einmitt til þess að hafa áhrif.“
Ég fór ekki fram á afsökunarbeiðni en ætli hún sé ekki bara sjálfsögð, sérstaklega eftir þetta?! Allan þennan faraldur...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, July 28, 2021