Niðurstaða dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara er að Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, sé hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embættið. Staðan sem um ræðir er embætti dómara sem hefur starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinnir störfum við alla héraðsdómstóla eftir ákvörðun dómstólasýslunnar.
Starfið var auglýst 7. maí og bárust sjö umsóknir um embættið. Auk Björns sóttu þau Herdís Hallmarsdóttir lögfræðingur, Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður, Sigurður Jónsson lögmaður, Valborg Steingrímsdóttir aðstoðarmaður dómara í Landsrétti og Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri óbyggðanefndar, um embættið.
Fram kemur í umsögn dómnefndar að Björn hafi í tæplega 18 ár fengist við rannsókn sakamála og ákvörðun um saksókn og við flutning sakamála fyrir dómi, fyrst sem fulltrúi en síðar sem saksóknari. Árið 2009 varð hann saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara þar til hann tók við starfi sviðsstjóra ákærusviðs efnahags- og skattalagabrota við embætti héraðssaksóknara í byrjun árs 2016. Björn hefur flutt mörg umfangsmikil og flókin efnahagsbrotamál á öllum dómstigum. Þá hefur hann einnig sinnt kennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri.
Hafði mesta reynslu umsækjenda
Í niðurstöðukafla umsagnar dómnefndar segir að niðurstaðan sé byggð á heildstæðu og málefnalegu mati á verðleikum umsækjenda „og skiptir þar mestu máli að þeir hafi til að bera almenna og víðtæka lögfræðilega menntun, þekkingu og færni. Við mat á því að hve miklu leyti starfsreynsla umsækjenda nýtist í störfum héraðsdómara skiptir mestu máli að þeir búi yfir staðgóðri reynslu af dómstörfum, lögmanns- og málflutningsstörfum og þeim stjórnsýslustörfum sem lúta að úrlausn ágreiningsmála.“
Álit dómnefndar var að Björn Þorvaldsson hafi staðið fremstur umsækjenda í þeim matshluta sem snýr að reynslu af dómstörfum, reynslu af lögmanns- og málflutningsstörfum og reynslu af stjórnsýslustörfum. „Munurinn á honum og nokkrum öðrum umsækjendum um embættið er hins vegar ekki svo afgerandi að hann ráði úrslitum um mat á hæfni þeirra, einn og sér,“ segir um þennan hluta matsins.
Því hafi skipt máli að horfa jafnframt til mats á færni umsækjenda til að nýta þá lögfræðiþekkingu sem þeir búa yfir við að leysa úr dómsmálum á skipulegan og rökstuddan hátt. Í þeim hluta matsins stóðu þau Björn og Sigríður Rut Júlíusdóttir fremst umsækjenda.
„Með skírskotun til alls þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða dómnefndar að Björn sé hæfastur umsækjendanna sjö til að gegna umræddu dómaraembætti,“ segir um lokaniðurstöðu dómnefndar.
Í dómnefnd sátu Eiríkur Tómasson, formaður, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson og Ragnheiður Harðardóttir.