Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn hafa skipt um sæti í stærðarröð framboðanna fyrir kosningarnar í Reykjavík á laugardaginn. Samfylkingin er enn mun stærri og mælist með 31,0 prósent atkvæða samkvæmt kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar eftir að könnun MMR síðan í dag er reiknuð með. Könnun MMR sýndi Samfylkinguna stærsta, Bjarta framtíð fimm prósentustigum á eftir og Sjálfstæðisflokkinn tæpum fjórum prósentustigum þar á eftir. Engin breyting er á sætafjölda síðan í síðustu Kosningaspá. Samfylking er enn með fimm fulltrúa og Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur með fjóra hvort.
MMR mælir jafnframt fylgi Vinstri grænna meira en fylgi Pírata í fyrsta sinn í nokkurn tíma þetta árið. Það sést bersýnilega í kosningaspánni því nú hefur dregið mjög saman með framboðunum og er munurinn á milli þeirra innan vikmarka spárinnar. Hreyfing annarra minni framboða er innan vikmarka milli keyrslu reiknilíkansins á bak við Kosningaspána. Vinstri grænir og Píratar fá enn sinn fulltrúann hvort.
Þróun á fylgi flokka í Reykjavík
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 26. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Hafa ber í huga að munurinn á fylgi Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks er langt innan vikmarka. Samfylkingin vera nokkuð örugglega stærst og með fimm fulltrúa kjörna. Fjórði fulltrúi Sjálfstæðismanna er þó valtur; fimmtándi og síðasti kjörni fulltrúinn á undan sjötta fulltrúa Samfylkingarinnar.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallavina, heldur tuttugasta sætinu á lista tuttugu efstu fulltrúanna. Framboð hennar mældist með stærra móti í könnun MMR, 5,3 prósent svarenda sögðust ætla að greiða henni atkvæði sitt.
Fimm dagar eru til kosninga og framboðin keppast við að koma stefnumálum sínum og áherslum að. Erfitt er að segja hversu mikilla áhrifa þessa gætir í könnun MMR, sem gerð er á nokkrum dögum. Þó er augljóst af línuritinu hér að ofan að einhvers konar mynstur er að myndast á fylgi flokkanna þó nokkuð rót hafi verið á þremur stærstu framboðunum.
Fjöldi fulltrúa samkvæmt nýjustu spá
[visualizer id="4611"]
Könnun MMR er nokkuð lítil og því fær hún minna vægi í Kosningaspánni en ella. Alls svöruðu 477 manns, þar af kaus fimmtungur að nefna ekki framboð. Könnunin var gerð á dögunum 20. til 23. maí.