Flokkarnir sem bjóða fram til borgarstjórnarkosninga eru byrjaðir að kynna áherslur sínar fyrir komandi kosningar og þá framtíðarsýn sem þeir bjóða kjósendum í höfuðborginni, nú þegar einungis þrjár vikur eru til kosninga.
Sjálfstæðisflokkurinn reið á vaðið og hélt blaðamannafund í Perlunni á miðvikudag, þar sem frambjóðendur flokksins fóru yfir málefnaáherslur flokksins, undir slagorðinu „Reykjavík sem virkar“.
Flokkurinn var sá stærsti í borginni í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018 með 30,8 prósent atkvæða og hefur verið með 8 borgarfulltrúa, en náði þrátt fyrir það ekki saman við aðra flokka um meirihlutasamstarf í upphafi kjörtímabils.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar frá 13. apríl mælist flokkurinn enn stærstur, með 25 prósent fylgi í Reykjavík. Kjarninn leit yfir helstu áherslurnar sem flokkurinn setti fram í vikunni.
Ný hverfi að Keldum og Örfirisey og þétting í úthverfum
Í skipulagsmálum segist Sjálfstæðisflokkurinn vilja „hefja kröftuga húsnæðisuppbyggingu um alla borg í lifandi borgarhverfum“ og að flokkurinn ætli sér að tryggja skipulag nýrra hverfa að Keldum og í Örfirisey. Einnig boðar flokkurinn „þéttingu byggðar innan hverfa sem hafa til þess svigrúm“ og svo eru nefnd þrjú úthverfi borgarinnar; Staðarhverfi, Úlfarsársdalur og Kjalarnes.
Flokkurinn segist einnig vilja fleiri 15 mínútna hverfi, þar sem verslun og þjónusta sé nærri íbúum og öflugri verslunarkjarna innan hverfa. Í því skyni segist flokkurinn vilja tryggja stofnstyrki til þeirra sem vilji hefja rekstur í auðum rýmum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur það einnig á sinni málefnaskrá að tryggja „einfaldara kerfi, rafræna stjórnsýslu og 30 daga afgreiðslufresti“ í málum sem snerta uppbyggingu húsnæðis.
Foreldrastyrkir og hærri frístundastyrkur
Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að tryggja leikskólapláss fyrir öll börn er þau ná 12 mánaða aldri, en hið sama hefur verið á stefnuskrá borgaryfirvalda allt kjörtímabilið. Í upphafi kjörtímabils var stefnt að því að öll 12 mánaða börn kæmust inn á leikskóla fyrir lok árs 2023, en nýlega var áætlun borgarinnar um leikskólamál, sem ber nafnið Brúum bilið, uppfærð og nú segir borgin að byrjað verði að „taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar í haust“.
Einnig boðar Sjálfstæðisflokkurinn að hann ætli sér að tryggja hækkun frístundastyrks borgarinnar, úr 50 þúsund krónum upp í 70 þúsund krónur. Í dag er Frístundakortið svonefnda í boði fyrir börn á aldrinum 6-18 ára, en flokkurinn vill að það gildi fyrir börn frá 5 ára aldri.
Í málefnaskrá flokksins segir einnig að flokkurinn vilji tryggja svokallaða foreldrastyrki, en það væri 100 þúsund króna greiðsla á mánuði „fyrir foreldra sem vilja dvelja heima með börnin sín eftir fæðingarorlof, til tveggja ára aldurs.“
Sjálfstæðisflokkurinn boðar einnig að hann vilji auka stuðning við einkarekna skóla, þannig að þeir þurfi ekki að innheimta skólagjöld. Sjálfstætt starfandi grunnskólar eiga rétt á því að fá framlög til sveitarfélögum sem nemur 75 prósent af meðalkostnaði við hvern grunnskólanema í landinu, en ekkert hámark er sett á hversu mikið sveitarfélög mega greiða með nemendum sjálfstætt starfandi skóla.
Borgarlína ekki nefnd á nafn í samgönguáherslum
Sjálfstæðisflokkurinn segist vilja tryggja „frelsi og val um fjölbreyttar samgöngur“ og notar í málefnaskrá sinni það orðalag að einn fararmáti eigi ekki að útiloka annan. Athygli vekur að Borgarlína er ekki nefnd á nafn í málefnaskrá flokksins, en þar segir þó að Sjálfstæðisflokkurinn vilji tryggja „öflugar og nútímalegar almenningssamgöngur“.
Flokkurinn vill tryggja að uppbygging Sundabrautar verði hafin á kjörtímabilinu, að hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar verði framfylgt af metnaði og að upphituðum stígum verði fjölgað í borginni. Einnig segist flokkurinn vilja tryggja snjallar ljósastýringar um alla borg og að orkuskiptum verði hraðað með bættu aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla í borgarlandinu, í samstarfi við aðila á markaði.
Endurskipulagning rekstrar og fækkun borgarfulltrúa
Í málefnaskrá flokksins segir að stjórnkerfi borgarinnar hafi „orðið að bákni“ og minnka þurfi yfirbyggingu, stöðva skuldasöfnun og sýna ráðdeild er sýslað er með fjármuni borgarbúa. Sjálfstæðisflokkurinn segist telja mikilvægt að rekstur borgarkerfisins verði endurskipulagður og ætlar sér að tryggja hagræðingu í opinberum rekstri og minni umsvif borgarinnar í samkeppnisrekstri.
Auk þess er flokkurinn með það inni í málefnaskrá sinni að tryggja þrýsting á að borgarfulltrúum verði fækkað úr 23 niður í 15. Sá þrýstingur mun þá beinast að ríkisstjórninni og Alþingi, en borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 úr 23 eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar í takti við gildandi sveitarstjórnarlög frá 2011.
Samkvæmt þeim lögum eiga aðalmenn í sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem íbúar hafa verið 100 þúsund eða fleiri fjögur ár í röð að vera 23-31 talsins.
Lægri fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði
Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla sér að tryggja lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og aukið framboð atvinnulóða í Reykjavík. Einnig vill flokkurinn að „nýsköpunarþorp“ verði til í Örfirisey fyrir hugvitsdrifna starfsemi.
Flokkurinn vill einnig tryggja að fasteignaskattar af íbúðarhúsnæði þeirra sem eru 67 ára eða verði lækkaðir. Tekið er fram í málefnaskránni að flokkurinn vilji tryggja að tekjumörk vegna afslátta verði hækkuð sem nemur 1,8 milljón kr. af árstekjum.
Í umhverfis- og loftslagsmálum segir flokkurinn að hann vilji tryggja kolefnisbindingu, „með lausnum á borð við Carbfix, skógrækt og endurheimt votlendis“, auk þess sem flokkurinn vill tryggja að „staðið verði vörð um græn svæði og þau byggð upp til útivistar“.
Flokkurinn segist einnig ætla að tryggja að sorphirða verði öflugri og endurvinnsla samræmd, auk þess sem betur verði staðið að snjóruðningi að vetri og götusópun að vori.
Kjarninn mun fara yfir framlagðar kosningaáherslur allra helstu framboða í Reykjavík á næstu dögum, en flokkarnir eru sem áður segir að leggja stefnumál sín fram, einn af öðrum, þessa dagana.