Stjórn Sýnar hf. hefur boðað til hluthafafundar, sem haldinn verður að morgni miðvikudagsins 31. ágúst. Fundurinn er boðaður að kröfu félagsins Gavia Invest, sem nýlega keypti rúmlega 16 prósenta hlut í Sýn, að mestu af félagi í eigu Heiðars Guðjónssonar fráfarandi forstjóra félagsins, sem átti 12,72 prósenta hlut.
Eftir að Gavia Invest hafði keypt sig inn í Sýn sendi félagið bréf á stjórn fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins með kröfu um stjórnarkjör og sagði í bréfinu að vegna umtalsverðra breytinga sem orðið hefðu á hluthafahópnum væri „rétt að umboð stjórnar félagsins verði endurnýjað og að stjórnarkjör fari fram.“
Samkvæmt tilkynningu frá stjórn Sýnar verður dagskrá fundarins með þeim hætti að fyrst verður kosið um tillögu Gavia Invest um að bundinn verði endir á kjörtímabil stjórnarinnar. Ef það verður samþykkt fer fram stjórnarkjör.
Gavia Invest er nýstofnað fjárfestingafélag sem Jón Skaftason er í forsvari fyrir. Gavia Invest er í eigu þriggja félaga, Capital ehf., E&S 101 ehf. og AB 891 ehf. Eigendur þessara félaga eru Reynir Grétarsson, Hákon Stefánsson, Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson, Mark Kroloff og áðurnefndur Jón Skaftason.
Hann hefur á umliðnum árum verið náin samstarfsmaður hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Ingibjargar Pálmadóttur og var framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Strengs og fjárfestinga hjá 365 þangað til fyrr á þessu ári. Hann er auk þess giftur Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eins og Kjarninn fjallaði um í gær vill Gavia Invest fá tvö af fimm sætum í stjórn Sýn, auk þess sem orðrómur hefur verið uppi um að félagið vilji fá sinn mann í forstjórastólinn. Þá er Jón Skaftason helst nefndur til leiks.
Sýn er stór leikandi á fjölmiðlamarkaði. Fyrirtækið á og rekur sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Stöð 2 Sport, vefmiðilinn Vísi og útvarpsstöðvarnar Bygljuna, FM957 og X977. Innan veggja fyrirtækisins er rekin stór fréttastofa, sameiginleg fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Þá á Sýn einnig fjarskiptafyrirtækið Vodafone.