Píratar leggja nú til að milliþrep tekjuskatts verði hækkaður úr 37,95 prósentum upp í 39,5 prósent og að efsta skattþrepið verði hækkað úr 46,25 prósentum í 53 prósent svo að ríkissjóður verði ekki fyrir tapi vegna aðgerðanna sem flokkurinn hefur lagt til í kosningabaráttunni sinni. Þetta kemur fram í fjármögnunartillögum Pírata, sem er aðgengileg á síðu flokksins.
Þessar skattahækkanir eru mun hærri en þær sem flokkurinn lagði til í gær, en líkt og Kjarninn greindi frá endurskoðuðu Píratar útreikninga sína eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum í útreikningum þeirra.
Píratar birtu sitt eigið kostnaðarmat á helstu aðgerðunum sem flokkurinn leggur til í kosningabaráttunni fyrr í vikunni. Fjórar helstu útgjaldatillögur sínar verðmátu Píratar á 93,4 milljarða króna, en flokkurinn lagði einnig til tekjuöflunartillögur sem áttu samkvæmt útreikningum flokksins að skila 83,7 milljörðum í ríkissjóð.
Auk þess gerði flokkurinn ráð fyrir því að 9,7 milljarðar skili sér í aukna innheimtu virðisaukaskatts vegna þess að tillögur flokksins auki það fé sem tekjulægra fólk hafi á milli handanna til neyslu.
Tekjuöflunartillögurnar fólu meðal annars í sér hækkun miðþreps tekjuskatts úr 37,95 prósentum í 38 prósent og hækkun efsta þreps tekjuskatts úr 46,25 prósentum í 50 prósent. Samkvæmt Pírötum átti hækkun efsta tekjuskattsþrepsins ein og sér að skila ríkissjóði 34,8 milljörðum króna. Þó segja Píratar að skattbyrði á þá sem eru með undir 1,2 milljón kr. í tekjur á mánuði verði ekki hærri, þar sem þeir boða einnig hækkun persónuafsláttar um 20 þúsund kr.
Meiri skattahækkanir en minni væntar tekjur
Í nýuppfærðum tekjuöflunartillögum Pírata hefur flokkurinn margfaldað boðaða hækkun á milliþrep tekjuskattsins, úr 0,05 prósentustigum í 1,55 prósentustig. Sömuleiðis hefur flokkurinn tæplega tvöfaldað boðuðu hækkunina á efsta þrep tekjuskattsins, úr 3,75 prósentustigum í 6,75 prósentustig.
Þrátt fyrir þessar skattahækkanir býst flokkurinn ekki lengur við að þær muni skila ríkissjóði 83,7 milljörðum króna, heldur gerir hann nú ráð fyrir 62 milljörðum í auknum tekjum. Vænt bein tekjuöflun Pírata hefur því lækkað um rúma 20 milljarða.