Þýskur dómstóll í Lüneburg hefur kveðið upp fjögurra ára fangelsisdóm yfir hinum 94 ára Oskari Gröning. Hann hefur verið þekktur sem „Bókarinn í Auschwitz, en hann hafði það hlutverk í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimstyrjöldinni að telja eigur fanganna sem nasistar gerðu upptækar.
Gröning var ákærður fyrir að hafa átt þátt í morðum að minnsta kosti 300.000 gyðinga en á endanum dæmdur fyrir stuðla að fjöldamorðum. Hann hefur sagst telja sig siðferðilega sekan af glæpunum. BBC greinir frá þessu. Nokkrir þeirra sem komust lífs af úr Auschwitz og eru enn á lífi báru vitni gegn Gröning.
Saksóknari fór fram á að Gröning yrði dæmdur fyrir þjóðarmorð vegna þess að hann hafi hjálpað til við að framkvæmdin gengi auðveldlega fyrir sig. Lögmenn hans segja hins vegar að þáttur hans í glæpum nasista geti varla talist hafa verið þjóðarmorð.
Réttarhöldin fjölluðu því um hversu stóran þátt fólk þurfti að hafa átt í þjóðarmorðum nasista til þess að hafa brotið af sér, án þess að drepa nokkurn mann.
Vegna aldurs er óvíst hvort Gröning muni nokkurntíma þurfa að afplána dóm sinn í fangelsi en hann er að öllum líkindum meðal síðustu nasistum sem sæta réttarhöldum vegna gjörða þeirra í seinni heimstyrjöldinni.
Gröning er ólíkur öðrum nasistum sem réttað hefur verið yfir vegna glæpa þeirra í seinni heimstyrjöldinni vegna þess að hann hefur lengi talað opinberlega um hlutverk sitt og útrýmingarbúðirnar. Hann segist hafa gert það til þess að þagga þá sem telja helförina aldrei hafa átt sér stað.
Í heimildarmynd BBC um Auschwitz frá 2005 segir hann: „Ég sá gasklefana. Ég sá líkbrennsluofnana. Ég var á rampinum þegar þeir völdu fólkið sem átti að fara í gasklefana.“
Þagði um Auschwitz í fyrstu
Talið er að 1,1 milljón manns hafi verið myrtir í Auschwitz-Birkenau.
Gröning var alinn upp af ströngum föður sem missti allt sitt í kreppunni á þriðja áratug síðustu aldar. Hann fékk fljótt áhuga á stríði og vildi komast í sérhæfða herdeild í þýska hernum. Gröning skráði sig því til liðs við Stormsveitir nasista árið 1940, 19 ára gamall.
Eftir að hafa unnið sem bókari fyrir SS-sveitirnar var hann sendur til Auschwitz árið 1941 eftir að hafa skrifað undir þagnareið um það sem hann myndi sjá og gera. Gröning var forvitinn um hvaða furðulegi staður þetta væri sem hann hefði verið sendur á og spurði yfirmenn sína. Þeir sögðu honum hins vegar að hann þyrfti að komast að því sjálfur því Auschwitz væru sérstakar fangabúðir. Gröning starfaði við útrýmingabúðirnar í Póllandi í heilt ár.
Gröning þagði um veru sína í Auschwitz eftir að hafa gefist upp fyrir breskum hersveitum í júní 1945. Hann segist hafa áttað sig á því að starf hans í Auschwitz gætu haft í för með sér neikvæð viðbrögð. Hann sagðist því hafa verið með annari herdeild og sagði svo síðar hafa gert það vegna þess að sigurvegarnir skrifa söguna og að það sem gerðist í Auschwitz hefði ekki alltaf verið mannúðlegt.